Shiffrin sló ótrúlegt met Vonn

Mikaela Shiffrin fagnar sögulegum sigri sínum í dag.
Mikaela Shiffrin fagnar sögulegum sigri sínum í dag. AFP/Marco Bertorello

Bandaríska skíðakonan, Mikaela Shiffrin, sló í dag met löndu sinnar, Lindsey Vonn, yfir flesta sigra á heimsbikarmótum í alpagreinum í sögunni þegar hún vann til gullverðlauna í stórsvigi í heimsbikarnum í Kronplatz á Ítalíu.

Sigurinn í dag var 83. sigur Shiffrin á heimsbikarmóti, en Vonn vann til 82 gullverðlauna í heimsbikarnum á ferli sínum.

Auk þess nálgast Shiffrin nú met Svíans Ingemars Stenmarks óðfluga. Hann vann til 86 gullverðlauna á heimsbikarmótum í alpagreinum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

mbl.is