HSÍ fær stærstan hluta af afreksstyrk ÍSÍ

Þátttaka karlalandsliðsins í handbolta á heimsmeistaramótinu er með kostnaðarsamari verkefnum …
Þátttaka karlalandsliðsins í handbolta á heimsmeistaramótinu er með kostnaðarsamari verkefnum ársins 2023. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handknattleikssamband Íslands fær stærstan hluta af úthlutun ársins 2023 úr Afrekssjóði ÍSÍ en framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands skýrði í dag frá árlegri úthlutun úr sjóðnum og að tillögur stjórnar Afrekssjóðsins hefðu verið samþykktar.

Styrkveitingar ÍSÍ til sambandsaðila nema alls rúmlega 535 milljónum króna en þar af var 205 milljónum úthlutað á fundi framkvæmdastjórnarinnar í desember og rúmlega 330 milljónum á fundi hennar í janúar.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ vegna verkefna ársins 2023 er 392 milljónir króna og hefur verið óbreytt síðustu ár.

Í tilkynningu frá ÍSÍ segir að Afrekssjóðurinn sé annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá, samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings ÍSÍ.

HSÍ fær hæsta framlagið, 82,6 milljónir króna. Næst kemur Fimleikasamband Íslands með 54,7 milljónir og í þriðja sæti er Sundsamband Íslands með tæpar 40 milljónir.

Á heimasíðu ÍSÍ má sjá ítarlega umfjöllun um úthlutun styrkjanna og allar upphæðir til sérsambandanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert