Woods íþróttamaður ársins hjá AP fréttastofunni

Tiger Woods.
Tiger Woods. Reuters

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods var í dag kjörinn íþróttamaður ársins í karlaflokki af íþróttafréttamönnum AP fréttastofunnar. Hann sigraði á 8 mótum á þessu ári og þar af á tveimur stórmótum, Opna breska meistaramótinu og PGA-meistaramótinu. Woods hefur alls sigrað á 12 stórmótum á ferli sínum en hann fagnar 31. afmælisdegi sínum þann 30. desember. LaDainian Tomlinson, leikmaður bandaríska ruðningsliðsins San Diego Chargers varð annar í kjörinu og svissneski tenniskappinn Roger Federer varð þriðji.

Þetta er í fjórða sinn sem Woods er efstur í þessu kjöri og jafnar hann þar með við hjólreiðamanninn Lance Armstrong sem var fjórum sinnum efstur í kjöri AP á íþróttamanni ársins. Woods var frekar undrandi á því að fá þessa viðurkenningu og taldi afrek Federer vera meiri á árinu. “Það sem Federer hefur afrekað á undanförnum þremur árum er ótrúlegt. Hann hefur aðeins tapað fimm leikjum á þremur árum. Það er frábær árangur,” sagði Woods sem var ekki með staðreyndirnar á hreinu þar sem að Federer vann 95 leiki og tapaði 5 á þessu ári og sigraði á 12 mótum í einliðaleik.

Woods fékk 260 stig í kjörinu, Tomlison fékk 230 stig en hann setti met í NFL-deildinni með því að skora 31 snertimark. Federer fékk aðeins 110 stig. Dwayne Wade leikmaður NBA-meistaraliðsins Miami Heat fékk 40 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert