GSS hélt upp á 40 ára afmælið

Verðlaunahafar í mótslok ásamt forsvarsmönnum GSS og nýjum heiðursfélaga klúbbsins, …
Verðlaunahafar í mótslok ásamt forsvarsmönnum GSS og nýjum heiðursfélaga klúbbsins, Steinari Skarphéðinssyni, sem er fjórði f.v. á myndinni. Sigurvegari mótsins, Haraldur Friðriksson, er annar frá hægri. mbl.is/BJB

Mikið var um dýrðir á Hlíðarendavelli um helgina í tilefni 40 ára afmælis Golfklúbbs Sauðárkróks, GSS. Opið afmælismót var á laugardeginum, þar sem um 70 kylfingar mættu til leiks, og í gær fór fram barna- og unglingamótið Nýprent-Open, þar sem annar eins fjöldi tók þátt. Auk heima manna komu kylfingar víða að á Hlíðarenda, einkum úr nágrannabyggðum á Norðurlandi.

Létu kylfingar ekki rigningu og smá rok á sig fá, og virtust heimamenn kunna betur að ráða við hina alræmdu „Skarðagolu“ en aðkomumenn. Þó að spáð hafði verið norðaustanátt daginn áður höfðu heimamenn á orði að í tilefni afmælismóts hefði Skarðagolan mátt til með að láta á sér kræla úr vestri - þvert á móti öllum veðurspám.

Afmælismótið á laugardeginum var punktakeppni með og án forgjafar. Verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin í karla- og kvennaflokki án forgjafar og forgjafarverðlaun fyrir fimm efstu sætin í opnum flokki með forgjöf.

Haraldur Friðriksson, GSS, sem þekkir orðið hverja þúst á Hlíðarenda eftir golfleik í nærri jafnlangan tíma og klúbburinn hefur verið starfandi, bar sigur úr býtum, bæði í punktakeppni með og án forgjafar og í opnum flokki. Efst í kvennaflokki með forgjöf var Sigríður Elín Þórðardóttir GSS en Árný Lilja Árnadóttir, GSS, varð efst án forgjafar. Nánari úrslit á mótinu má sjá á vefnum golf.is.

Á Nýprent-Open var keppt í átta flokkum barna og unglinga, auk sérstaks móts fyrir byrjendur í íþróttinni. Þar fengu ungir skagfirskir kylfingar harða keppni frá nágrönnum sínum frá Akureyri og Dalvík, sem röðuðu sér í efstu sætin ásamt nokkrum nokkrum heimamönnum. Í fararbroddi fyrir fríðum hópi frá Dalvík var Árni Jónsson golfkennari, en hann reif einnig upp barna- og unglingastarfið hjá GSS. Úrslit mótsins má einnig sjá á golf.is.

Rotarýmenn áttu frumkvæðið 

Golfklúbbur Sauðárkróks var stofnaður 6. nóvember árið 1970, að frumkvæði Rotarýklúbbs Sauðárkróks. Heimildir fyrir golfiðkun í Skagafirði eru þó öllu eldri en Landsmótið í golfi árið 1944 fór fram á Vallarbökkum nálægt Varmahlíð. Starfsemi klúbbsins var stopul fyrstu árin en heimamenn eignuðust ekki golfvöll fyrr en árið 1978 í landi Skarðs, skammt norðan bæjarins. Hlíðarendavöllur komst svo í gagnið 1982 og er af mörgum golfspekingum talinn með skemmtilegustu 9 holu völlum landsins. Um 160 manns eru meðlimir í GSS í dag.

Fyrsti heiðursfélagi GSS er Friðrik J. Friðriksson en við verðlaunaafhendingu í mótslok var tilkynnt um útnefningu annars heiðursfélaga, Steinars Skarphéðinssonar, sem formlega verður heiðraður í sérstöku afmælishófi 6. nóvember nk.

Margir góðir kylfingar hafa komið frá GSS og slitið þar barnsskónum, m.a. Sigurpáll Geir Sveinsson, Örn Sölvi Halldórsson og Einar Haukur Óskarsson. Tveir þeir síðarnefndu voru meðal keppenda um helgina en náðu sér ekki á strik í „Skarðagolunni".

Formaður GSS, Pétur Friðjónsson, og Unnar Ingvarsson, varaformaður, ásamt Árnýju …
Formaður GSS, Pétur Friðjónsson, og Unnar Ingvarsson, varaformaður, ásamt Árnýju Lilju Árnadóttur við 6. braut á Hlíðarenda. Árný varð efst í kvennaflokki á afmælismótinu án forgjafar og önnur með forgjöf. mbl.is/BJB
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert