Slæmur endasprettur Birgis í Queensland

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson.

Birgir Leifur Hafþórsson var að ljúka þriðja hringnum á ástralska PGA-meistaramótinu í golfi í Queensland en það er liður í Evrópumótaröðinni.

Birgir var á einu höggi undir pari eftir tvo fyrstu hringina sem hann lék á 74 og 69 höggum og komst af miklu öryggi í gegnum niðurskurðinn.

Hann var á pari eftir þrettán holur í nótt (hóf keppni eldsnemma að morgni í Ástralíu) og hafði þá fengið tvo fugla og tvo skolla. Þá fékk hann hins vegar tvo skolla í röð og síðan skramba á 17. holunni.

Niðurstaðan varð því sú að Birgir Leifur lék hringinn á fjórum höggum yfir pari, 76 höggum. Hann er sem stendur í 70. sæti af þeim 75 keppendum sem komust í gegnum niðurskurðinn en er einn af aðeins fimm sem hafa lokið þriðja hringnum þegar þetta er skrifað.

Adam Bland og Marc Leishman frá Ástralíu eru með forystu, léku báðir fyrstu tvo hringina á samtals 12 höggum undir pari og eru nýlagðir af stað á þriðja hring.

mbl.is