„Mjög ánægður með seinni níu“

Fyrsti fuglinn hjá Íslendingi á risamóti karla í golfi kom …
Fyrsti fuglinn hjá Íslendingi á risamóti karla í golfi kom á 10. braut á Carnoustie í dag. mbl.is/Páll Ketilsson

„Ég er sáttur,“ sagði Haraldur Franklín Magnús úr GR um frumraun sína og Íslendinga á risamóti karla í golfi en hann lék Carnoustie á 72 höggum í Skotlandi í dag á fyrsta hring Opna breska meistaramótsins eða The Open Championship. 

Mbl.is tók Harald tali eftir að hann hafði skilað inn skorkortinu og kvittað undir býsna gott skor miðað við hversu litla reynslu hann hefur úr atvinnumennsku. 

„Ég þarf að fara betur yfir hringinn. Ég var mjög stressaður á fyrri níu holunum og ekki alveg nógu góður á þeim kafla en ég var mjög ánægður með sinni níu holurnar,“ sagði Haraldur en hann var á fjórum höggum yfir pari eftir níu holur. Fyrsti fuglinn kom í hús á 10. holu og alls urðu þeir fimm á seinni níu holunum. Telst það til tíðinda á Carnoustie og verður áhugavert að sjá hversu mörgum af bestu kylfingum heims tekst að leika það eftir í mótinu að fá fimm fugla á seinni níu. 

Haraldur tekur fram að honum hafi aldrei liðið verulega illa yfir skorinu þótt staðan hafi verið nokkuð erfið þegar hringurinn var hálfnaður og þá höfðu tvö til þrjú stutt pútt farið forgörðum.

„Þessi íþrótt er upp og niður. Ég hugsaði bara um að halda áfram því sem ég ætlaði mér að gera með kylfisveininum. Smám saman fór mér að líða betur og betur og held að það hafi hjálpað. Ég hafði átt nokkur góð pútt og leið aldrei verulega illa. Veðrið var gott í dag en holustaðsetningarnar erfiðar og þess vegna reyndi maður að koma boltanum inn á miðja flöt og pútta í versta falli tvisvar. Ég náði að sigla nokkrum púttum heim á seinni níu holunum sem var mjög skemmtilegt,“ sagði Haraldur ennfremur í samtali við mbl.is. 

Eins og sakir standa er Haraldur um miðjan hóp en síðustu ráshóparnir eru nýfarnir af stað og því á margt eftir að gerast í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert