Mickelson vann 9 milljón dollara einvígið

Phil Mickelson og Tiger Woods mættust í sérstöku einvígi í …
Phil Mickelson og Tiger Woods mættust í sérstöku einvígi í kvöld. AFP

Phil Mickelson sigraði Tiger Woods á fjórðu holu í bráðabana í einvígi tveggja af sigursælustu kylfingum sögunnar sem var að ljúka í Las Vegas og fékk þar með níu milljón dollara verðlaunin sem í boði voru.

Mickelson náði einnar holu forskoti á annari braut og hélt því framan af hringnum. Tiger jafnaði og þeir voru síðan yfir til skiptis þar til Tiger jafnaði síðast metin á sautjándu og næstsíðustu holunni.

Þeir voru í kjölfarið jafnir eftir átján holur og þar með þurfti að grípa til bráðabana. Tiger átti möguleika á að tryggja sér sigurinn á fyrstu holunni, þegar þeir léku 18. brautina aftur, en átta feta pútt geigaði og þar með færðu þeir sig yfir á 20. braut vallarins þar sem flóðljós voru tilbúin til að lýsa upp einvígið ef það stæði langt fram á kvöldið.

Mickelson var í betri stöðu á annari holu en púttaði of stutt og enn var staðan jöfn. Þeir héldu áfram á 20. brautinni og léku þar þriðju holuna í bráðabananum. Mickelson fékk enn betra tækifæri til að tryggja sér sigurinn en aftur geigaði púttið, nú af aðeins fjórum fetum.

Á fjórðu holunni, enn á 20. brautinni, náði Mickelson loks að tryggja sér sigurinn. Hann púttaði af fjórum fetum og í þetta sinn tókst það og níu milljón dollararnir voru í höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert