Keppni hætt vegna veðurs

Ragnhildur Kristinsdóttir og Axel Bóasson voru sigurvegarar í fyrra.
Ragnhildur Kristinsdóttir og Axel Bóasson voru sigurvegarar í fyrra. Ljósmynd/Golf.is

Veðrið hefur sett frekari strik í reikninginn í Hvaleyrarbikarnum í golfi, stigamótinu hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði. Keppni hefur verið hætt í dag vegna veðurs og til stendur að láta keppendur leika 36 holur á morgun til að skera úr um úrslit.

Kylfingarnir voru sendir af stað við erfiðar aðstæður í morgun, sem þó voru betri en í gær þegar fyrsta keppnisdegi var aflýst. Þegar veður versnaði var leik hinsvegar hætt í dag. Ekki voru allir farnir af stað í dag og fyrir vikið verður skorið á þeim holum sem leiknar voru í morgun strikað út og byrjað upp á nýtt eldsnemma í fyrramálið. Er það gert vegna sanngirnissjónarmiða.

Á morgun koma kylfingarnir til með að leika 18 holur fyrir hádegi og aðrar 18 holur eftir hádegi. Til að koma því fyrir er fyrirkomulaginu breytt með þeim hætti að ræst verður út á öllum teigum kl 6:30 í fyrramálið og verða fjórir saman í ráshópi í stað þriggja eins og venjan er í stigamótum GSÍ. Á síðari hringnum eftir hádegið verður ræst út á 1. og 10. teig samtímis.

Mótsstjórn Hvaleyrarbikarsins sendi frá sér tilkynningu vegna þeirrar stöðu sem upp er komin en hún er eftirfarandi:

Mótsstjórn Hvaleyrarbikarsins hefur ákveðið að ógilda þau skor sem komin eru í þessari umferð og hefja leik á henni á ný. Þetta er gert vegna sanngirnissjónarmiða í ljósi þess að veðurspá morgundagsins er mun betur útlítandi enn veðrið var í  morgun.

Tekin hefur verið ákvörðun að hefja leik á ný í umferðinni klukkan 06:30 í fyrramálið og hefja leik samtímis á öllum teigum, 4 í ráshópi.

Lokaumferð fer síðan fram með ræsingu eftir skori á 1. og 10. teig klukkan 13:00-15:00 á morgun sunnudag, 3 í ráshópi.

mbl.is