„Erfitt að átta sig á þessu“

Collin Marikawa með verðlaunagripinn sem hann hlaut í gær.
Collin Marikawa með verðlaunagripinn sem hann hlaut í gær. AFP

Banda­ríkjamaður­inn Coll­in Morikawa sagðist ekki alveg vera búinn að átta sig fyllilega á árangrinum sem hann væri búinn að ná eftir að hann fagnaði sigri á The Open-risamótinu í golfi á Royal St. George's-golfvellinum í Kent á Englandi í gær.

Morikawa er 24 ára gamall og hefur verið atvinnukylfingur í tvö ár. Hann vann sitt fyrsta ri­sa­mót, PGA-meist­ara­mótið, í ág­úst á síðasta ári í fyrstu tilraun. Þá var þetta í fyrsta sinn sem hann tek­ur þátt á The Open.

Hann er þar með fyrsti kylf­ing­ur­inn í sög­unni til þess að vinna tvö ri­sa­mót í fyrstu til­raun. „Það er erfitt að átta sig á þessu og láta þetta síast inn. Það er svolítið erfitt að líta um öxl og skoða þessi tvö ár sem ég hef verið atvinnukylfingur og sjá hvað ég hef afrekað, því ég vil meira.

Ég nýt þessara augnablika, ég elska þau og vil kenna sjálfum mér að njóta þeirra aðeins meira, kannski eyða nokkrum auka dögum í að slappa af og drekka úr þessu,“ sagði Morikawa eftir sigurinn í gær og vísaði til verðlaunabikarsins sem hann hlaut.

Morikawa þótti sýna fyrirtaks rólyndi á lokahringnum í gær en sagði taugarnar svo sannarlega hafa sagt til sín þótt það sæist kannski ekki.

„Þegar maður er að upplifa þessi augnablik og elskar það sem maður fæst við, þá eru þetta bestu augnablik allra tíma því taugarnar ýta þér í áttina að því að verða betri manneskja.

Ég er ánægður með að ég líti út fyrir að vera rólegur, því taugarnar eru svo sannarlega þandar, en maður beinir taugunum í rétta átt og breytir þeim í spennu og orku,“ sagði hann og bætti við að lokum:

„Ég hef haft trú á sjálfum mér og því, frá því að ég varð atvinnukylfingur, að ég gæti gert þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert