Í basli á Belfry

Andri Þór Björnsson.
Andri Þór Björnsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír íslenskir kylfingar hófu leik á hinum sögufræga enska golfvelli Belfry á Áskorendamótaröð Evrópu í gær. 

Engum þeirra gekk sérstaklega vel í gær og þurfa þeir að láta hendur standa fram úr ermum til að eiga möguleika á að komast í gegnum niðurskurð keppenda eftir 36 holur.

Andri Þór Björnsson lék á 73 höggum og var á höggi yfir pari vallarins. Aðstæður voru góðar og skorið gott. Andri er í 88. sæti og þarf væntanlega að leika undir pari í dag til að eiga möguleika.

Bjarni Pétursson þarf á mjög góðum hring að halda en hann lék á 75 höggum í gær. Haraldur Franklín Magnús virtist ekki hafa náð að jafna sig eftir eftir bráðabana og dramatík á mótaröðinni síðasta sunnudag og lék á 78 höggum. 

Belfry - völlurinn hefur fjórum sinnum verið vettvangur keppninnar um Ryder-bikarinn. Til dæmis árið 1985 þegar lið Evrópu braut ísinn og vann en einnig 1989, 1993 og 2002. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert