Á meðal efstu manna í Portúgal

Haraldur Franklín Magnús er að gera það gott í Portúgal.
Haraldur Franklín Magnús er að gera það gott í Portúgal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús heldur áfram að berjast á toppnum á Open de Portugal-mótinu á Áskorendamótaröð Evrópu í golfi sem fram fer í Vau Óbido í Portúgal.

Haraldur Franklín lék sinn annan hring á mótinu í dag og fékk fimm fugla og þrjá skolla en hann lauk keppni á samtals 70 höggum eða tveimur höggum undir pari.

Haraldur lék fyrsta hringinn á 69 höggum eða þremur höggum undir pari og er sem stendur í 5. sæti á mótinu á fimm höggum undir pari.

Niðurskurðarlínan miðast við parið og því ljóst að Haraldur keppir á bæði morgun og sunnudag í Portúgal en hann er einungis tveimur höggum á eftir efstu mönnum, Stuart Manley frá Wales og Nathan Kimsey frá Englandi, sem hafa leikið á sjö höggum undir pari.

mbl.is