Florentina valin í íslenska landsliðið

Florentina Stanciu markvörður ÍBV.
Florentina Stanciu markvörður ÍBV. mbl.is/Ómar

Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, hefur kallað Florentinu Stanciu, markvörð ÍBV, inn í æfingahóp sinn þar sem hún er orðin íslenskur ríkisborgari.

Florentina mun þá að óbreyttu spila með landsliðinu gegn Svíum þegar þjóðirnar mætast í tveimur vináttulandsleikjum hér á landi um næstu helgi.

HSÍ bíður eftir því að Handknattleikssamband Evrópu og Handknattleikssamband Rúmeníu veiti Florentinu leikheimild og í tilkynningu frá HSÍ segir að hún sé væntanleg á næstu dögum.

Þá kemur fram að Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Fram, verði Ágústi til aðstoðar fram yfir umspilsleikina við Tékka sem fram fara í júní. Hann kemur þá í staðinn fyrir Gústaf Adolf Björnsson sem hætti á dögunum af persónulegum ástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert