Tap gegn Svíum í fyrsta leik Axels

Karen Knútsdóttir skoraði 5 mörk í dag.
Karen Knútsdóttir skoraði 5 mörk í dag. mbl.is/Golli

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta lék í dag fyrsta leik sinn undir stjórn þjálfarans Axels Stefánssonar þegar liðið mætti Svíþjóð á æfingamóti í Zielona Góra í Póllandi.

Svíar unnu tíu marka sigur, 33:23, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 20:12.

Á vef HSÍ segir að Svíar hafi teflt fram sínu sterkasta liði í þessum fyrsta leik sínum eftir Ólympíuleikana í Ríó í ágúst. Svíar hafi tekið öll völd á vellinum í fyrri hálfleik en meira jafnvægi verið í þeim seinni. Íslenska liðið hafi mikið nýtt sér það að skipta markverði út af fyrir sjöunda útileikmann í sóknarleik sínum, með ágætum árangri.

Ísland mætir á morgun tapliðinu úr leik Póllands og Slóvakíu sem eigast við þessa stundina.

Mörk Íslands gegn Svíþjóð:
Karen Knútsdóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Rut Jónsdóttir 3, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Steinunn Hansdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 2, Lovísa Thompson 1, Arna Sif Pálsdóttir 1, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert