Handboltaskandall í Noregi

Rauða spjaldið.
Rauða spjaldið. Ljósmynd/eurohandball.com

Norska handknattleikssambandið hefur tekið til skoðunar atvik sem átti sér stað í leik Elverum og Lillestrøm í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik um nýliðna helgi.

Fjórir leikmenn Elverum fengu að líta rautt spjald í leiknum af ásetningi að skipun þjálfarans og hefur þessi ákvörðun þjálfarans sætt mikilli gagnrýni í Noregi.

Þetta var annað rauða spjaldið sem fjórmenningarnir hafa fengið á leiktíðinni og þeir eru þar með sjálfkrafa komnir í eins leiks bann. Þeir missa því af lokaleiknum í deildarkeppninni en Elverum, sem hafði betur gegn Lillestrøm, 30:22, hefur þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn.

„Ég viðurkenni að við spiluðum eftir því að þessir fjórir leikmenn fengju rautt spjald. Þeir hafa allir fengið rautt spjald fyrr á tímabilinu og þeir verða því ekki með í leiknum á móti Halden. Þeir koma svo aftur til leiks með okkur í úrslitakeppninni þar sem við þurfum á þeim að halda. Þar sem tvö rauð spjöld þýðir eins leiks bann valdi ég að leysa málið með þessum hætti,“ sagði Michael Aplegren, þjálfari Elverum, við norska blaðið Østlingen eftir leikinn.

„Það sem Elverum gerði er langt frá því sem norskur handbolti stendur fyrir og þetta er siðferðilega ámælisvert,“ segir Tom-Eirik Skarpsno, þjálfari Haslum.

mbl.is