Rakel tekur enga áhættu

Rakel Dögg Bragadóttir undirbýr skot í leik gegn Val.
Rakel Dögg Bragadóttir undirbýr skot í leik gegn Val. mbl.is/Kristinn Magnúss.

„Í ljósi minnar sögu þá er það skýrt af minni hálfu og þjálfara liðsins að engin áhætt er tekin. Ég tek mér þann tíma sem þarf til þess að jafna mig,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, handknattleikskona hjá Stjörnunni.

Rakel hlaut slæma byltu í leik Stjörnunnar og Gróttu á þriðjudaginn í síðustu viku og skall m.a. með hnakkann í gólfið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rakel fær þungt högg á höfuðið og því enn meiri ástæða en áður til þess að tefla ekki á tvær hættur.

„Mér leið illa í síðustu viku en þegar mér fór að líða betur þá reyndi ég að mæta á æfingu enda er það eina leiðin til þess að ganga úr skugga hvort ég hafi jafnað mig eða ekki. Á æfingunni kom skýrt í ljós að ég á nokkuð í land og því verð ég að taka lífinu með ró áfram,“ sagði Rakel Dögg sem lék m.a. ekki með Stjörnunni gegn ÍBV á Íslandsmótinu í fyrrakvöld.

„Það er óvíst hvenær ég mæti til leiks á nýjan leik. Heilsan til framtíðar skiptir mestu máli og lífið nær lengra en fram yfir næsta leik þótt manni þyki á stundum annað.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert