Vorum ekki tilbúin í þann pakka

Halldór Harri Kristjánsson.
Halldór Harri Kristjánsson. mbl.is/Kristinn Magnúss.

„Mér fannst varnarleikurinn með því betra sem við höfum sýnt síðustu vikur og Dröfn virkilega góð í markinu. En við erum með yfir 20 tæknifeila í dag og það bara drepur okkur,“ segir Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.

Stjarnan féll úr leik í 8-liða úrslitum Coca Cola-bikars kvenna í handbolta í kvöld með þriggja marka tapi gegn ÍBV, 27:24.

„Við náum í raun ekki að refsa neitt með hraðaupphlaupum þrátt fyrir að spila góða vörn, á meðan að um leið og við gerum þessa tæknifeila okkar þá fáum við mark í bakið,“ segir Halldór Harri, en Eyjakonur voru iðnar við að sækja hratt til baka eftir sóknir Stjörnunnar, hvort sem þær enduðu með marki eða ekki:

„Við vorum bara ekki tilbúin í þann pakka. Við ræddum þetta í hálfleik og mér fannst við betri í seinni hálfleiknum í að koma okkur heim og vera klárar. Við vorum auðvitað með skiptingu á milli sóknar og varnar en það á ekki að hafa þessi áhrif,“ segir Halldór Harri.

„Ég veit ekki hvað veldur öllum þessum mistökum í sókninni. Þetta eru einfaldir tæknifeilar þar sem er ekki einu sinni pressa, en við erum samt að kasta í hendur og fá dæmd á okkur skref. Einfaldir hlutir sem eiga ekki að sjást. Þegar tæknifeilarnir eru yfir 20 talsins þá á maður ekki meira skilið,“ segir Halldór Harri. Stjarnan þarf nú að einbeita sér að deildinni þar sem liðið er í 5. sæti og þarf allt að ganga upp til að liðið komist í úrlistakeppnina.

„Mér fannst margt jákvætt í þessum leik miðað við „ströglið“ hjá okkur í vetur, og auðvitað vonaðist maður til þess að við færum í Höllina því þá yrðu kannski þessir meiddu leikmenn komnir inn. Við erum vængbrotin og eigum ekki eins marga kosti og við hefðum óskað, en við eigum samt að geta gert betur en í dag,“ segir Halldór Harri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert