Skrítin stemning eftir leik

Egidijus Mikalonis skoraði sitt 100. mark á tímabilinu á gamla ...
Egidijus Mikalonis skoraði sitt 100. mark á tímabilinu á gamla heimavellinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Það sáu það svosem allir fyrirfram að þetta var erfiður leikur fyrir okkur. En við gáfumst aldrei upp og héldum áfram að spila,“ sagði Egidijus Mikalonis, leikmaður Víkings, eftir tapið gegn Selfyssingum í Olísdeildinni í handbolta í kvöld.
„Þetta byrjaði ágætlega hjá okkur en það komu auðvitað kaflar í þessum leik eins og í nánast öllum okkar leikjum í vetur þar sem hlutirnir eru ekki að ganga upp og það fer með leikinn hjá okkur. Þetta er auðvitað búið að vera erfitt í vetur en fer bara í reynslubankann hjá okkur,“ bætti Egidijus við. Lokatölur urðu 37:26, Selfossi í vil.

Egidijus er einn fjölmargra íslenskra handboltamanna sem alinn er upp á Selfossi, sonur Ramunas Mikalonis sem er goðsögn handboltanum í mjólkurbænum. Egidijus er markahæstur Víkinga í vetur en hann skoraði sitt 100. mark í deildinni í kvöld á glæsilegan hátt og lauk mótinu með 101 mark skorað. Hann sagði að það hefði verið skemmtilegt að koma á Selfoss í kvöld. 

„Þetta var mjög skemmtilegur leikur. Það er dálítið skrítið að koma hingað og spila á móti gamla liðinu sínu. Ég spilaði auðvitað á móti þeim með Mílunni en þetta var allt öðruvísi í kvöld, margir áhorfendur og frábær stemmning í stúkunni. Stemmningin gaf okkur líka orku og það er gaman að taka þátt í svona leik.“

Sigur Selfyssinga var öruggur en þeir þurftu svo að bíða í tíu mínútur eftir úrslitunum úr leik Fram og ÍBV þar sem Eyjamenn tryggðu sér deildarmeistaratitilinn með síðasta skoti leiksins.  

„Þetta var dálítið skrítin stemmning eftir leik, það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Ég hélt auðvitað með Selfoss og hefði viljað sjá bikarinn fara á loft hér í kvöld frekar en hjá ÍBV. Maður er alltaf Selfyssingur inn við beinið,“ bætti Egidijus við að lokum.

mbl.is