Hef engar áhyggjur af Agnari og Róberti

Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var svipað og í síðasta leik, það vantar gæði og frammistöðu,“ sagði svekktur Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 25:28-tap fyrir Aftureldingu í Olísdeild karla í handbolta í dag. 

„Við erum að ströggla. Það er ákveðið taktleysi í okkur, sérstaklega í sókninni. Við þurfum að hafa helvíti mikið fyrir öllum hlutum. Það vantar ákveðið flæði hjá okkur þar og það er eitthvað sem við þurfum að vinna í.

Það vantar takt sem kemur með meiri æfingu og leiktíma. Ég hef fulla trú á að hann komi. Þetta snýst ekki um hvað við erum að gera heldur hvernig við gerum hlutina. Við þurfum að [fá] ákveðna menn í gang og vera betri sem lið í sókninni,“ bætti Snorri við. 

Agnar Smári Jónsson og Róbert Aron Hostert komu til Vals frá Íslandsmeisturum ÍBV í sumar og þeir náðu sér alls ekki á strik í dag. Snorri hefur ekki teljandi áhyggjur af þeim, en vill fá meira frá öllu liðinu. 

„Ekki bara þeim, ég vil fá meira frá öllum. Þeir sem eiga mikið inni vita það best sjálfir. Ég hef engar áhyggjur af þeim og alls ekki Agnari og Róberti. Þeir eru frábærir leikmenn og hafa komið hrikalega vel inn í þetta. Þeir eru frábærir í hópnum og þótt þeir séu ekki að spila sinn besta leik eru þeir góðir í handbolta og þetta kemur hjá þeim,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson. 

mbl.is