Íslendingatríóið hafði betur

Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingatríóið hjá Aalborg hafði betur gegn Gunnari Steini Jónssyni og Rúnari Kárasyni og samherjum í Ribe Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld, 24:22, en leikurinn fór fram í Álaborg. 

Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú af mörkum Álaborgarliðsins auk þess sem hann átti tvær stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði eitt mark. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg sem er í efsta sæti deildarinnar með 28 stig að loknum 17 leikjum. GOG er í öðru sæti með 25 stig en á leik inni á Aalborg.

Gunnar Steinn og Rúnar skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Ribe Esbjerg. Skotnýting Rúnars var ekki eins og best verður á kosið en sjö skot fóru forgörðum, þar af eitt vítakast. Rúnar og Gunnar áttu tvær stoðsendingar hvor.

Ribe Esbjerg er í 9. sæti af 14 liðum deildarinnar með 12 stig eftir 17 leiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert