Sólveig Lára var hetja á Selfossi

Sólveig Lára Kristjánsdóttir, KA/Þór, skoraði sigurmark liðsins á Selfossi í ...
Sólveig Lára Kristjánsdóttir, KA/Þór, skoraði sigurmark liðsins á Selfossi í kvöld. mbl.is/Þórir Tryggvason

Sólveig Lára Kristjánsdóttir var hetja KA/Þórs þegar liðið vann nauman sigur á botnliði Olís-deildar kvenna í handknattleik, Selfossi, 29:28, í íþróttahúsi Iðu á Selfossi í kvöld í lokaleik 15. umferðar deildarinnar. 

Sólveig Lára vann boltann af Selfoss-liðinu á síðustu mínútu og geystist upp í hraðaupphlaup og skoraði markið sem skildi liðin að þegar upp var staðið. KA/Þór var með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:13.

KA/Þór er áfram í 5. sæti deildarinnar en aðeins tveimur stigum á eftir ÍBV með 15 stig þegar sex umferðir eru eftir að deildarkeppninni. Fjögur efstu liðin fara að henni lokinni í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn. Selfoss rekur lestina með fjögur stig.

KA/Þór var með yfirhöndina í leiknum í 50 mínútur í kvöld. Heimaliðið sótti mjög í sig veðrið á lokamínútunum og náði m.a. að jafna metin í 25:25, eftir að hafa verið fjórum mörkum undir, 25:21, þegar rétt innan við tíu mínútur voru til leiksloka. Síðustu mínúturnar voru æsilega spennandi. 

Mörk Selfoss: Perla Ruth Albertsdóttir 8, Hulda Dís Þrastardóttir 5, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Rakel Guðjónsdóttir 3, Kristrún Steinþórsdóttir 2, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 1, Sarah Boye Sörensen 1, Carmen Palamariu 1. 

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 17 skot í marki Selfoss.

Mörk KA/Þórs: Katrín Vilhjálmsdóttir 6, Martha Hermannsdóttir 6, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 6, Ásdís Guðmundsdóttir 5, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Ásdís Sigurðardóttir 2, Aldís Ásta Heimisdóttir 1, Rakel Sara Elvarsdóttir 1. 

Olgica Andrijasevic varði 14 skot í marki KA/Þórs.

 

mbl.is