Vill ekki feta í fótspor Alfreðs

Filip Jicha tekur við af Alfreð Gíslasyni.
Filip Jicha tekur við af Alfreð Gíslasyni. Gjorgji Licovski

Tékkinn Filip Jicha tekur við þjálfun þýska handboltaliðsins Kiel af Alfreð Gíslasyni eftir leiktíðina. Jicha er sem stendur aðstoðarmaður Alfreðs, sem hefur stýrt Kiel frá árinu 2008. Jicha ræddi um komandi starf sitt og Alfreð í viðtali við handball-world í dag. 

„Alfreð er einn sigursælasti þjálfari í heims,“ sagði Jicha, sem vill samt sem áður ekki feta beint í fótspor Alfreðs. „Alls ekki, það væri óskiljanlegt. Ég vil fara mínar eigin leiðir og ná árangri með félag sem skiptir mig miklu máli. Ég vil búa til eitthvað gott hérna.“

„Ég veit hvernig ég vil spila og liðið verður að vera eins og ein stór fjölskylda. Ég ætla að gera hlutina eins og ég vil gera þá og setja minn persónuleika á liðið,“ bætti hann við. 

mbl.is