Björn Viðar skellti í lás gegn FH

FH-ingurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að Kristjáni Erni Kristjánssyni hjá ...
FH-ingurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að Kristjáni Erni Kristjánssyni hjá ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Viðar Björnsson átti stórleik fyrir ÍBV þegar liðið vann fyrsta leik sinn gegn FH í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Kaplakrika í dag. Leiknum lauk með fimm marka sigri ÍBV, 28:23, en Björn varði 21 skot í marki ÍBV, þar af þrjú vítaköst og er ÍBV því komið 1:0-yfir í einvíginu.

Mikið jafnfræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Eyjamenn skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins. Hafnfirðingar komu tilbaka og jöfnuðu metin eftir tíu mínútna leik. Þá tóku FH-ingar yfirhöndina í leiknum og voru með forystu eftir 20. mínútna leik, 8:7. Eyjamenn svöruðu um hæl og leiddu með tveimur mörkum þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, 10:8. Hákon Daði Styrmisson klikkaði á vítakasti og algjöru dauðafæri undir lokin en það kom ekki að sök og Eyjamenn leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 13:11.

Eyjamenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu fjögurra marka forskoti. Hafnfirðingar neituðu að gefast upp og var munurinn á liðunum tvö mörk þegar 40. mínútur voru liðnar af leiknun, 18:16. Þá kom svakalegur leikkafli hjá ÍBV og Kári Kristján Kristjánsson kom Eyjamönnum sjö mörkum yfir þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Hafnfirðingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en Björn Viðar Björnsson varði hvert skotið á fætur öðru í marki Eyjamanna og hreinilega neitaði að hleypa FH inn í leikinn.

Eyjamenn leyfðu sér að slaka aðeins á, á lokamínútunum, en það kom ekki að sök og ÍBV fagnaði öruggum sigri. Fannar Þór Friðgeirsson og Kristján Örn Kristjánsson voru atkvæðamestir í liði ÍBV með fimm mörk hvor en hjá Hafnfirðingum var Ágúst Birgison sá eini sem náði sér á strik með átta mörk. Annar leikur liðanna fer fram í Vestmannaeyjum þann 22. apríl.

FH 23:28 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með fimm marka sigri ÍBV!
mbl.is