Fókusinn fór þegar verkefnið varð erfitt

Einar Andri Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik.
Einar Andri Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik. mbl.is/Hari

„Fókusinn fór hjá okkur undir lokin þegar menn sáu fram á að verkefnið var orðið erfitt viðureignar. Það var hinsvegar lélegt hjá okkur að enda leikinn svo eftir góðan fyrri hálfleik,“ sagði vonsvikinn þjálfari Aftureldingar, Einar Andri Einarsson, eftir að lið hans tapaði öðru sinni fyrir Val, 31:21, í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla að Varmá í dag. Afturelding er þar með úr leik en Valsmenn halda áfram keppni í undanúrslitum.

„Við byrjuðum síðari hálfleikinn illa með þeim afleiðingum að Valsmenn náðu fimm marka forskoti eftir aðeins fimm mínútur. Okkur tókst að minnka muninn niður í þrjú mörk en komumst ekki nær áður enn við misstum einbeitinguna,“ sagði Einar Andri en þetta er annað árið í röð sem Aftureldingarliðið fellur úr keppni í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla.

„Seinni hálfleikur var vonbrigði að okkar hálfu. Valsmenn eru líka klókir að spila úr þeirri stöðu sem þeir komust í. Þeir leika langar sóknir sem hófust yfirleitt ekki fyrr en eftir 30 til 40 sekúndur. Síðan léku þeir þangað til hendur dómaranna voru komnar upp. Ég hrósa þeim. Valsmenn voru betri að þessu sinni og verðskulda að komast áfram,“ sagði Einar Andri sem átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum í leikslok.

Einar Andri sagði niðurstöðu leiktímabilsins vera vonbrigði. Stefnan hafi sannarlega verið að ná lengra og lið hans hafi sýnt það í fyrri viðureigninni við Val í átta liða úrslitum á síðasta laugardag að meira bjó í því en það sýndi að þessu sinni.  „Fyrirfram töldum við okkur eiga ágæta möguleika í þessu einvígi. Það var högg fyrir okkur að missa Arnór Frey Stefánsson markvörð út meiddan auk þess sem Birkir Benediktsson var ekki leikfær. Hann fórnaði sér í leikina, fremur af vilja en mætti.

Veturinn í heild var ekki eins og við vonuðumst eftir. Arnór Freyr og Birkir, tveir lykilmenn voru mikið frá vegna meiðsla frá í nóvember. Okkur tókst ekki að fylgja eftir góðri byrjun í haust. Þar af leiðandi er niðurstaða tímabilsins vonbrigði,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar sem er samningsbundinn félaginu til eins árs til viðbótar.

mbl.is