KA-menn sóttu sigur í Safamýri

Þorgrímur Smári Ólafsson sækir að vörn KA í dag.
Þorgrímur Smári Ólafsson sækir að vörn KA í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

KA batt enda á þriggja leikja sigurgöngu Fram í Olís-deild karla með tveggja marka sigri í Safamýri í dag, 27:25, og færðist þar með upp í sjöunda sæti deildarinnar með sjö stig. Hafði sætaskipti við Fram. KA var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10.

Fram-liðið náði sér aldrei á strik í fyrri hálfleik gegn ákveðnum KA-mönnum sem virtust ekkert sakna Tariks Kasumovic sem var látinn taka pokann sinn í gær. Sóknarleikur Fram var agalítill gegn framliggjandi 3/2/1 vörn KA-liðsins. Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, tók leikhlé eftir um 20 mínútur til þess að berja í brestina en allt kom fyrir ekki. Eftir jafnar upphafsmínútur tóku gestirnir völdin á leikvellinum og náðu mest fimm marka forskoti, 13:8, skömmu fyrir lok hálfleiksins. Framarar náðu aðeins að klóra í bakkann fyrir lokin svo aðeins munaði fjórum mörkum í hálfleik, 14:10. Þeim tókst ekki að nýta síðustu sókn hálfleiksins til þess að minnka muninn í þrjú mörk sem hefði verið Fram-liðinu mikilvægt þar sem það hóf síðari hálfleik með boltann.

Framarar byrjuðu síðari hálfleik af krafti og skoruðu þrjú fyrstu mörkin. Virtist sem þeir ætluðu að jafna metin. KA-menn bitu frá sér. Fóru að leika með sjö menn í sókninni. Sú ráðstöfun gekk bærilega. Hinsvegar var varnarleikurinn áfram aðal KA-liðsins sem komst hvað eftir annað inn í sendingar milli Framara. Eins var Jovan Kukobat vel með á nótunum í marki KA.

Tíu mínútum fyrir leikslok hafði KA fimm marka forskoti, 21:16. Þá keiknaði loksins á Fram-liðinu sem nýtti sér vel að vera manni fleiri um skeið og minnkaði  muninn. Þar með fengu menn blóð á tennurnar. Fjórum mínútum fyrir leikslok var munuirnn kominn í eitt mark, 24:23, KA í vil. Gríðarlega spenna var á lokamínútunum þar sem örvæntingarfullar tilraunir Fram til að ná að minnsta kosti annað stigið báru ekki árangur.

Þorgrímur Smári Ólafsson var markahæstur hjá Fram með sjö mörk. Andri Heimir Friðriksson var næstur með fjögur mörk.  Áki Egilsnes skoraði sjö mörk fyrir KA og þeir Andri Snær Stefánsson, Allan Norðberg og Dagur Gautason skoruðu fjögur mörk hver. Jovan Kukobat varð 13 skot í marki KA, mörg þeirra á lokakaflanum þegar Fram var að minnka muninn.

Fram 25:27 KA opna loka
60. mín. KA tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert