Ákveðin líkindi með silfurliðinu í Peking

Íslenska landsliðið á EM.
Íslenska landsliðið á EM. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Það er margt líkt með íslenska karlalandsliðinu í handknattleik í dag og liðinu sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 að sögn Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar, fyrrverandi landsliðsmanns í handknattleik.

Íslenska liðið hefur farið frábærlega af stað á EM í Austurríki, Svíþjóð og Noregi og er með fullt hús stiga í E-riðli keppninnar eftir sigra gegn Danmörku og Rússlandi. Íslenska liðið mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í riðlinum í dag en Ísland er nú þegar komið áfram í milliriðla. Sigur gegn Ungverjum myndi hins vegar gera það að verkum að liðið fer með tvö stig inn í milliriðla. Þá væri liðið einnig í mun betra stöðu að ná í annað af þeim tveimur sætum sem í boði eru á EM fyrir undankeppni Ólympíuleikanna í Tókýó 2020.

„Ef við horfum á síðustu tvo leiki sem íslenska liðið er búið að spila þá er ekki annað hægt en að vera bjartsýnn fyrir Ungverjaleikinn sem leggst virkilega vel í mig. Við förum fullir sjálfstrausts inn í þennan leik og ef við náum upp svipaðri spilamennsku og í fyrstu tveimur leikjum þá ætti þetta að vera klár sigur að mínu mati. Guðmundur Þórður Guðmundsson er búinn að vera tæp tvö ár með liðið og hefur á þeim tíma náð að koma inn með sínar áherslu og annað.

Hann vill spila ákveðinn varnarleik og sóknarleik og þetta er í raun bara fyrsta stórmótið þar sem að liðið er að uppskera eftir þessar áherslubreytingar sem orðið hafa á liðinu. Að sama skapi eru bara tveir leikir búnir og við þurfum að passa það að fara ekki fram úr okkur en það er alveg á hreinu að liðið hefur litið mjög vel út í þessum fyrstu tveimur leikjum.“

Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með Íslandi á EM 2010.
Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með Íslandi á EM 2010. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ásgeir Örn er á meðal reyndustu landsliðsmanna Íslands frá upphafi en hann á að baki 247 leiki þar sem hann hefur skorað 414 mörk. Hann viðurkennir að gengi íslenska liðsins á mótinu hafi komið sér á óvart.

„Það hefur komið mér á óvart hversu góðir við erum. Ég vissi að við værum með gott lið en að vinna Dani og slátra Rússum er kannski ekki alveg eitthvað sem maður átti von á. Ásýnd liðsins hefur líka komið mér á óvart og það hversu heilsteypt liðið er. Það er erfitt að finna veikleika á liðinu á þessum tímapunkti og þetta hefur verið mun betra en ég bjóst við. Eitt af því sem hefur svo komið mér mest á óvart er hversu gríðarlega sterkir við höfum verið í vörninni. Vörnin sem liðið spilar er alltaf smá rúlletta en varnarleikurinn hefur gengið fullkomlega upp."

Sjá viðtalið í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert