Sannfærður um að Guðmundur spilar til sigurs

Kári Kristján Kristjánsson skorar gegn Dönum í sigurleiknum á laugardaginn.
Kári Kristján Kristjánsson skorar gegn Dönum í sigurleiknum á laugardaginn. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Óhætt er að segja að Danir nagi neglurnar vegna stöðu sinnar í E-riðli Evrópumóts karla í handknattleik. Þeir verða að treysta á að Íslendingar vinni Ungverja í lokaumferðinni í dag, og sjálfir síðan að vinna Rússa í seinni leiknum því annars er þátttöku þeirra á mótinu lokið.

Ísland er með fjögur stig og komið áfram, Ungverjaland er með þrjú stig, Danmörk eitt stig en Rússland er án stiga og þegar úr leik í baráttunni um sæti í milliriðli.

„Þetta er að sjálfsögðu staða sem enginn okkar vildi vera í. En við getum ekki gert mikið við því lengur. Nú verðum við að bíða og sjá hvað gerist í fyrri leiknum og síðan verðum við að ljúka okkar verki sjálfir,“ sagði skyttan öfluga Mikkel Hansen við BT.

Mikið hefur verið gert úr því að Guðmundur Þ. Guðmundsson og íslenska liðið séu með örlög Dana í sínum höndum en Guðmundur þjálfaði Dani og fékk ekki að halda áfram með liðið þótt hann stýrði því til ólympíutitils árið 2016.

Danski landsliðsmaðurinn René Toft Hansen telur að þetta sé ekki ofarlega í huga Guðmundar í dag.

„Ég er viss um að hann er fyrir löngu búinn að skilja þetta við sig og það höfum við líka sjálfir gert. Ég er sannfærður um að Guðmundur spilar til sigurs, hvort sem það þýði að hann taki Danmörku með sér áfram í keppninni eða ekki. Ég er viss um að hann er ekki að velta sér upp úr löngu liðnum tíma og farinn að hugsa um allt aðra hluti," sagði Toft við Danmarks Radio.

mbl.is