Þjóðverjar seinka handboltanum fram í maí

Alexander Petersson og liðsfélagar hans í Rhein-Neckar Löwen eru í …
Alexander Petersson og liðsfélagar hans í Rhein-Neckar Löwen eru í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar. Ljósmynd/Rhein-Neckar Löwen

Þjóðverjar setja stefnuna á að þýska 1. deildin í handknattleik muni hefjast á nýjan leik þann 16. maí næstkomandi en þetta kemur fram á heimasíðu deildarinnar. Öllum leikjum í deildinni var frestað um óákveðinn tíma í byrjun mars vegna kórónuveirunnar en til stóð að leikar í deildinni myndu hefjast á nýjan leik hinn 23. apríl næstkomandi.

Þessi dagsetning er hins vegar ekki rituð í stein og það verður því ekki ákveðið að hefja leik í deildinni fyrr en það er talið öruggt fyrir leikmenn og þjálfara. Forráðamenn þýsku 1. deildarinnar greina einnig frá því að það gæti vel farið svo að deildarkeppninni yrði aflýst, takist ekki að hemja veiruna sem skyldi í Þýskalandi.

Það verður þá í höndum forráðamanna deildarinnar að skera úr um meistara sem og hvaða lið muni taka þátt í Evrópukeppnum á næstu leiktíð. Ef ákveðið verður að aflýsa deildarkeppninni mun ekkert lið falla úr deildinni en hins vegar eiga lið úr þýsku B-deildinni áfram möguleika á því að fara upp um deild.

Liðin í deildinni hafa leikið 26-27 leiki af 34 á tímabilinu. Kiel er með 44 stig á toppnum, Flensburg er með 42 stig og Magdeburg 39 stig í næstu sætum. 

mbl.is