Var kallaður feitur og ljótur

Nikolaj Jacobsen
Nikolaj Jacobsen AFP

Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari karlaliðs Dana í handbolta, greinir frá áreiti sem hann hefur orðið fyrir á samfélagsmiðlum í viðtali við BT í heimalandinu. 

Jacobsen gerði danska liðið að heimsmeistara í Egyptalandi í ársbyrjun, en þrátt fyrir það biðu hans niðrandi skilaboð á samfélagsmiðlum eftir mótið. 

„Ég fékk mikið af skilaboðum og sum þeirra voru um útlitið á mér. Ég var kallaður feitur og ljótur. Þetta var samt ekki næstum því eins slæmt og þegar við féllum úr leik á EM. Þá fékk ég mun fleiri skilaboð um útlit mitt,“ sagði Jacobsen. 

„Mér er svo sem sama hvað fólki finnst, en ég skil ekki af hverju fólk hefur áhuga á að senda mér svona. Þetta fólk hlýtur að vera algjörlega samviskulaust,“ bætti hann við.

mbl.is