Langar að upplifa þetta aftur

Karen Knútsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Karen Knútsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Kristinn Magnússon

Kar­en Knúts­dótt­ir, leikreynd­asti leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik, þráir að fá að taka þátt á einu stórmóti til viðbótar áður en hún hættir. Karen er leikjahæsta landsliðskona hópsins og ein fárra sem hefur áður tekið þátt á stórmóti.

Landsliðið komst á þrjú stórmót í röð, Evrópumeistaramótin 2010 og 2012 og heimsmeistaramótið 2011, en Karen er aðeins ein fjögurra leikmanna í 20 manna hópi Íslands sem spilaði með liðinu á þeim tíma.

Það fækkar alltaf í hópnum, þær sem eru búnar að fara á stórmót, það eru komin mörg ár síðan,“ sagði Karen í viðtali í kvöldfréttum RÚV. Hún gat sjálf ekki tekið þátt með liðinu í undankeppninni í síðasta mánuði þar sem hún gat ekki farið frá ungu barni sínu.

Hún er hins vegar klár í slaginn fyrir umspilsleikina gegn Slóveníu um næstu helgi en íslenska landsliðið fékk undanþágu til að æfa fyrir leikina. Karen fer ekki leynt með þá ósk sína að upplifa eitt stórmót til viðbótar áður en hún hættir að spila.

„Klukkan tifar og við eigum ekki mörg ár eftir ef maður ætlar að eignast fleiri börn. Þetta er ein besta minningin á ferlinum, sérstaklega HM í Brasilíu. Mig langar að upplifa þetta aftur áður en ég hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert