Valur í úrslit eftir tap í spennutrylli

Valsmaðurinn Einar Þorsteinn Ólafsson sækir að marki ÍBV í leiknum …
Valsmaðurinn Einar Þorsteinn Ólafsson sækir að marki ÍBV í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert

Valur er komið í úrslit Íslandsmótsins í handknattleik karla eftir 27:29 tap fyrir ÍBV í Origo-höllinni að Hlíðarenda í kvöld. Valsmenn vinna þar með einvígið með einu marki eftir 28:25 sigur í Vestmannaeyjum fyrr í vikunni.

Valsmenn byrjuðu leikinn ögn betur og komust í 1:3 forystu. Eyjamenn fundu þá taktinn og náðu að snúa taflinu við með því að komast í 5:4.

Áfram voru sveiflur í leiknum og vöknuðu Valsmenn vel við það að lenda undir í fyrsta skipti. Komust þeir í 10:6 forystu þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður.

Heimamenn héldu fjögurra marka forystunni um nokkra stund, eða allt þar til þeir komust í 10:14. Eyjamenn áttu þá góðan kafla og minnkuðu muninn í aðeins eitt mark, 13:14.

Valsmenn hleyptu gestunum þó ekki nær en einu marki frá sér og fóru með 14:16 forystu í hálfleik.

Mikið jafnræði var með liðunum í síðari hálfleikunum. Til að byrja með voru Valsmenn með tveggja eða þriggja marka forystu en Eyjamenn unnu sig sífellt betur inn í leikinn.

Eftir að Valsmenn náðu fjögurra marka forystu, 17:21, kom frábær kafli hjá gestunum, sem náðu forystunni þegar hálfleikurinn var tæplega hálfnaður, 22:21, og náðu undirtökunum í leiknum.

Leikurinn var áfram í járnum og fengu Eyjamenn nokkrum sinnum tækifæri til þess að komast tveimur mörkum yfir og velgja þannig heimamönnum undir uggum.

Það tókst loks á 57. mínútu þegar gestirnir komust í 28:26 forystu. Í stöðunni 29:27 fyrir ÍBV voru 12 sekúndur eftir á leikklukkunni og gestirnir í sókn. Með marki hefðu Eyjamenn getað tryggt sér sigur á fleiri skoruðum útivallarmörkum.

Þegar sókn Eyjamanna var nýhafin misstu þeir hins vegar boltann klaufalega þegar Einar Þorsteinn Ólafsson las leikkerfi þeirra frábærlega, hirti boltann af Degi Arnarssyni og skaut í stöng frá eigin vallarhelmingi og leiktíminn rann út.

Tveggja marka tap því staðreynd og Valsmenn fara með sigur af hólmi í einvíginu eftir að hafa sem áður segir unnið fyrri leikinn í Vestmannaeyjum með þremur mörkum, og mæta Haukum í úrslitum Íslandsmótsins.

Einar Þorsteinn Ólafsson og Hákon Daði Styrmisson voru báðir liðum …
Einar Þorsteinn Ólafsson og Hákon Daði Styrmisson voru báðir liðum sínum mikilvægir í kvöld. Eggert Jóhannesson

Lengi vel var útlit fyrir að Valsmenn myndu sigla þægilegum sigri í höfn en það er aldrei á vísan að róa þegar Eyjamenn eru annars vegar. Þeir gefast aldrei upp og voru frábærir stærstan hluta síðari hálfleiks.

Munaði enda þegar á hólminn var komið einungis einu marki á liðunum og mega Valsmenn þakka mögnuðum varnarleik Einars Þorsteins á ögurstundu fyrir það að þeir fara í úrslitaleikinn en ekki Eyjamenn.

Baráttuglaðir Eyjamenn unnu afar vel úr þeirri hömlun sem getur fylgt því að vera ekki með neina örvhenta skyttu í hægri skyttu stöðunni í sóknarleik sínum. Auk þess var varnarleikurinn góður stærstan hluta leiksins og Petar Jokanovic átti flottan leik í markinu, þar sem hann varði 14 skot, sjö í hvorum hálfleik.

Nokkrar af vörslum hans komu á mjög mikilvægum tímapunktum seint í leiknum og gerðu Eyjamönnum kleift að komast jafn nálægt úrslitunum og raunin varð. Hákon Daði Styrmisson átti þá einu sinni sem áður stórleik í vinstra horninu og skoraði 10 af mörkum Eyjamanna.

Valsmenn léku vel stóran hluta leiksins þar sem markaskorun dreifðist vel á milli leikmanna og Martin Nagy varði vel í fyrri hálfleiknum. Hann eins og aðrir leikmenn Vals misstu hins vegar dampinn allverulega seinni hluta síðari hálfleiks. Varnarleikurinn var áfram prýðilegur en sóknarleikurinn var slakur. Að lokum kom það þó ekki að sök þrátt fyrir afar taugatrekkjandi lokamínútur.

Valur 27:29 ÍBV opna loka
60. mín. Martin Nagy (Valur) varði skot Eyjamenn halda boltanum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert