Fór á kostum í óvæntum sigri HK gegn ÍBV

Sunna Jónsdóttir sækir að marki HK-inga í Kórnum í kvöld.
Sunna Jónsdóttir sækir að marki HK-inga í Kórnum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir átti frábæran leik fyrir HK þegar liðið tók á móti ÍBV í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í Kórnum í Kópavogi í kvöld.

Leiknum lauk með 27:21-sigri HK en Jóhanna var markahæsti maður vallarins með 8 mörk.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik náðu HK-ingar þriggja marka forskoti og HK leiddi með sex mörkum í hálfleik, 15:9.

HK jók forskot sitt jafnt og þétt í upphafi síðari hálfleiks og náði mest níu marka forskoti, 19:10, og ÍBV tókst aldrei að ógna forystu HK-inga eftir það.

Sara Katrín Gunnarsdóttir skoraði 7 mörk fyrir HK og Elna Ólöf Guðjónsdóttir 5 mörk. Þóra Björg Stefánsdóttir var markahæst í liði ÍBV með 6 mörk og Karolina Olszowa og Sunna Jónsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor.

Þetta var fyrsti sigur HK á tímabilinu en liðið er með 2 stig í fimmta sæti deildarinnar. ÍBV er með 2 stig í sjöunda sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert