Óvæntur sigur Stjörnunnar á Val

Helena Rut Örvarsdóttir skorar eitt sex marka sinna í dag.
Helena Rut Örvarsdóttir skorar eitt sex marka sinna í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Stjarnan gerði góða ferð í Origo-höllina á Hlíðarenda og vann 26:25-sigur á Val í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði sigurmarkið tæplega mínútu fyrir leikslok og tókst Val ekki að jafna.

Stjarnan byrjaði af gríðarlegum krafti og komst í 5:1 snemma leiks en Valskonur svöruðu og jöfnuðu í 5:5. Eftir það var mikið jafnræði út fyrri hálfleikinn en Stjarnan skrefinu á undan. Val tókst hinsvegar að jafna aftur fyrir hálfleik og var staðan í leikhléi 16:16.

Liðin skiptust á að vera með forystuna í jöfnum og spennandi seinni hálfleik en Stjarnan var með forystuna þegar mestu máli skipti og fagnaði góðum tveimur stigum.

Lovísa Thompson sneri aftur á völlinn í dag.
Lovísa Thompson sneri aftur á völlinn í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Áðurnefnd Lena Margrét var markahæst hjá Fram með sjö mörk, Helena Rut Örvarsdóttir gerði sex og Eva Björk Davíðsdóttir fimm. Tinna Húnbjörg varði 15 skot í marki Stjörnunnar.

Hildigunnur Einarsdóttir skoraði mest hjá Val eða sjö mörk, Thea Imani Sturludóttir gerði sex og Lovísa Thompson, sem er komin aftur á völlinn eftir stutt frí, skoraði fjögur mörk.

Valur er áfram í öðru sæti með 16 stig, þremur stigum á eftir Fram og með leik til góða. Stjarnan er í fimmta sæti með tíu stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert