Þrjár í barneignarfrí en sautján marka sigur

Camilla Herrem er komin í barneignarfrí og spilar ekki á …
Camilla Herrem er komin í barneignarfrí og spilar ekki á EM. AFP

Norska kvennalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, hóf undirbúning sinn fyrir EM í nóvember með sautján marka sigri í dag, mitt í mikill umræðu um hversu veikt liðið sé orðið eftir að þrír lykilmenn þess fóru í barneignarfrí.

Noregur valtaði yfir Sviss, 39:22, í fyrsta leik Gulldeildarinnar, alþjóðlegs móts sem hófst í Danmörku í dag. Þar beindust allra augu að Henny Reistad sem er 23 ára og var gerð að fyrirliða fyrir leikinn í dag, en norskir handboltasérfræðingar segja að hún sé fullkominn leikmaður og á hraðleið í að verða ein sú besta í heiminum.

Hún tók við fyrirliðabandinu af Stine Bredal Oftedal sem spilar ekki á mótinu í Danmörku eftir að hafa nefbrotnað.

Veronica Kristiansen, leikmaður Györ í Ungverjalandi, var markahæst með sjö mörk og Emilie Hegh Arntzen var mjög öflug með níu stoðsendingar.

Þrjár af helstu stjörnum norska liðsins á undanförnum árum, Kari Brattset Dale, Camille Herrem og Sanna Solberg-Isaksen, eru allar ófrískar og komnar í frí af þeim sökum en þær hafa samanlagt spilað 571 landsleik fyrir Noreg.

mbl.is