Takk Tinna sjúkraþjálfari

Hafdís Renötudóttir markvörður var skotin út úr fyrri leik Íslands …
Hafdís Renötudóttir markvörður var skotin út úr fyrri leik Íslands og Ísrael en var mjög góð í seinni leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er mjög ánægð með að geta verið með í dag – takk Tinna sjúkraþjálfari,“ sagði Hafdís Renötudóttir markvörður Íslands eftir öruggan 33:24 sigur á Ísrael þegar liðin mættust á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag en það var seinni leikur liðanna um að komast í umspil fyrir HM kvenna í handbolta.

Hafdís fékk skot í andlitið  um miðjan fyrri hálfleik liðanna á laugardaginn og var ekki meira með þann daginn en þakkar Tinnu Jökulsdóttur sjúkraþjálfara liðsins að hafa komið sér í stand fyrir leikinn í dag. 

Hún hafði því tíma til að skoða frammistöðu liðsins af bekknum á laugardaginn og segir sitt lið hafa mætt betri til leiks í dag.  „Við komum meira tilbúnar í þennan en þetta var mjög svipað hjá hinu liðinu og í fyrri leiknum en mættum heilt yfir betur í dag.

Mér og öllum hinum fannst að allir hefðu átt tuttugu prósent inni frá leiknum á laugardaginn og mér fannst það líka en mér fannst við tilbúnar til að spila hundrað prósent í dag og þá vitum við að við eigum að vinna leikinn.  Það er stígandi í liðinu, það er á uppleið og hlakka til að spila á stórmóti með þessum stelpum því við erum að fara komast þangað,“ bætti Hafdís við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert