ÍBV úr leik þrátt fyrir sigur á Madeira

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði tíu mörk fyrir ÍBV á Madeira …
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði tíu mörk fyrir ÍBV á Madeira í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV er úr leik í Evrópubikar kvenna í handknattleik þrátt fyrir sigur á Madeira SAD í seinni leik liðanna á portúgölsku eyjunni Madeira í kvöld, 24:22.

Madeira vann fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum keppninnar í gær, 30:23, en það taldist vera heimaleikur Eyjakvenna.

Í kvöld náði ÍBV nokkrum sinnum vænlegri forystu. Eyjakonur komust í 11:6 í fyrri hálfleik og voru með forystu í hálfleik, 14:10.

Þær komust í 16:11 fljótlega eftir hlé en misstu forskotið síðan niður í eitt mark, 16:15. Aftur komu þær sér inn í leikinn með því að vera yfir, 22:17, þegar níu mínútur voru eftir og var staðan 23:19 þegar fimm mínútur voru eftir.

Þá skoruðu Madeirakonur tvö mörk, minnkuðu muninn í 23:21, og eftir það var raunhæfur möguleiki Eyjakvenna á að vinna upp forskotið úr sögunni.

Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 10, Sunna Jónsdóttir 6, Ingibjörg Olsen 2, Birna Berg Haraldsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 2, Marija Jovanovic 1, Marta Wawrzynkowska 1.

mbl.is