Gamla ljósmyndin: Ungur spariklæddur þjálfari

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is halda áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Ágúst Þór Jóhannsson gerði á dögunum nýjan langtímasamning um að þjálfa kvennalið Vals í handknattleik eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs á síðasta keppnistímabili. Gildir samningurinn út tímabilið 2027. 

Síðast tók Ágúst við kvennaliði Vals árið 2017 og hefur síðan þá gert liðið þrívegis að Íslandsmeisturum og tvívegis að bikarmeisturum. 

Tuttugu og fjögur ár eru hins vegar liðin frá því Ágúst tók fyrst að sér þjálfun kvennaliðs Vals í íþróttinni eða sumarið 1999. Þá einungis 22 ára gamall og árangurinn lét ekki á sér standa því skömmu eftir árþúsundamótin eða í snemma árs 2000 varð liðið bikarmeistari nokkuð óvænt.  

Meðfylgjandi mynd er tekin í bikarúrslitaleiknum gegn Gróttu/KR í Laugardalshöllinni árið 2000 þar sem Ágúst fer yfir sviðið með leikmönnum sínum í sínu fínasta pússi. Þeir leikmenn sem greina má á myndinni eru markvörðurinn Berglind Íris Hansdóttir sem stendur fyrir aftan Ágúst. Standandi til hægri er Anna Steinsen og sitjandi lengst til hægri má sjá vangasvipinn á Gerðu Betu Jóhannsdóttur. Myndina tók Kristinn Ingvarsson sem myndaði lengi fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Ágúst er uppalinn í KR og lék með KR og Gróttu/KR en lagði skóna á hilluna sumarið 1999. Á þjálfaraferlinum hefur hann þjálfað kvennalið Vals og Gróttu/KR hérlendis, Levanger í Noregi og SönderjyskE í Danmörku. Þá var Ágúst landsliðsþjálfari kvenna 2000-2001 og aftur 2011-2016. Í fyrra tilfellinu lét hann af störfum hjá Val til að taka við landsliðinu. Undir hans stjórn lék Ísland á HM 2011 og EM 2012 en í dag er Ágúst aðstoðarþjálfari landsliðsins. Ágúst hefur auk þess stýrt kvennalandsliði Færeyja.

Ágúst hefur þjálfað karlalið Gróttu/KR, Gróttu, HK, Víkings og KR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert