Aron Einar þyrfti að taka sig á í lyftingasalnum

Bræðurnir Arnór Þór Gunnarsson og Aron Einar Gunnarsson á góðri …
Bræðurnir Arnór Þór Gunnarsson og Aron Einar Gunnarsson á góðri stundu. Ljósmynd/Bergischer

​Handbolta- og landsliðsmaðurinn fyrrverandi Arnór Þór Gunnarsson var fljótur að venjast þjálfarastarfinu en hann lagði skóna á hilluna síðasta vor eftir langan og farsælan feril hér heima og í Þýskalandi.

Arnór Þór, sem er 36 ára gamall, er uppalinn hjá Þór á Akureyri en hann lék með Bergischer í þýsku 1. deildinni á árunum 2012 til 2023 áður en hann lagði skóna á hilluna síðasta vor.

Að loknu síðasta tímabili var hann svo ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins en Bergischer er í harðri fallbaráttu og situr sem stendur í 17. og næstneðsta sæti þýsku 1. deildarinnar með 14 stig, stigi frá öruggu sæti.

Væri gaman að koma heim

Uppeldisfélag Arnórs, Þór á Akureyri, er stórhuga í handboltanum þessa dagana en hefur Arnór leitt hugann að því að snúa aftur heim í bráð og taka þátt í uppbyggingunni sem á sér stað á Akureyri?

„Það væri gaman að koma heim og þjálfa hjá Þórsurum einn daginn,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is þegar hann var spurður út í gróskuna hjá uppeldisfélagi sínu þessa dagana.

Hægri hornamaðurinn Oddur Gretarsson mun ganga til liðs við Þórsara í sumar og Oddur skoraði á Aron Einar Gunnarsson, fyrirliða íslenska karlalandsliðsins og bróður Arnórs, að hætta í fótboltanum og ljúka ferlinum með handboltaliði Þórs.

„Ef Aron ætlar að snúa sér aftur að handboltanum þarf hann að vera talsvert duglegri í lyftingasalnum en hann er í dag. Það var frábært að sjá Odd taka skrefið heim til Íslands en sjálfur er ég samningsbundinn Bergischer í eitt ár til viðbótar. Við þurfum svo bara að sjá til hvað verður þegar samningur minn rennur út,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Arnór Þór má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert