Fimikeppnin blásin út af borðinu

Fimikeppni hefur alltaf átt erfitt uppdráttar í Íslandshestamennskunni. Eðli málsins samkvæmt hefur þátttaka í henni aldrei risið verulega hátt og virðist það eiga bæði við um hér á Íslandi sem og í útlöndum. Ekki virðist hafa orðið breyting á þessu þrátt fyrir tilraunir til að þróa keppnina í ríkari mæli að íslenska hestinum og hæfileikum hans. Þá hefur kunnátta og færni Íslendinga í fimiæfingum tekið stórstígum framförum með tilkomu allra þeirra reiðhalla eða skála sem byggð hafa verið hér á landi. Um það verður ekki lengur deilt að fimiæfingar henta íslenska hestinum afar vel til uppbyggingar hans og gerir hann betri í því sem hann er bestur í nefnilega tölti og skeiði.

Mikilvægur hlekkur í framförum

Hiklaust má taka svo sterkt til orða að segja að fimiæfingarnar séu afar mikilvægur hlekkur í öllum framförum í reiðmennsku og þær auki reiðmönnum mjög skilning á þeim möguleikum sem hesturinn getur boðið upp á og því hversu margar leiðir er hægt að fara í þjálfun hans. Þrátt fyrir miklar efasemdir hér áður fyrr um að fimiæfingar henti íslenska hestinum hefur blaðinu verið snúið í þeim efnum. Það er orðið löngu ljóst að íslenski hesturinn með alla sína sérstöðu á miklu meiri samleið í reiðmennsku og þjálfunaraðferðum með öðrum hrossakynjum og gildir þar einu hvort um ganghesta er að ræða eða ekki.

Hvað íslenska hestinn varðar er það einnig ljóst að fimiæfingarnar eru fyrst og fremst tæki eða aðferð til að þjálfa upp fiman og þjálan reiðhest þar sem tölt og skeið eru aðalatriði. Fimiæfingarnar sjálfar eru ekki takmarkið eins og er víða í öðrum kynjum erlendis enda er það nú svo að í samanburði við mörg önnur hrossakyn má íslenski hesturinn sín lítils á vettvangi fiminnar. En hvar finnum við hesta sem standa jafnfætis í tölti og skeiði í einum og sama hestinum?

Gleymum ekki grunnþætti reiðmennskunnar

Atli Guðmundsson, sem varð Íslandsmeistari í fimi á Breka frá Hjalla, var ekki ánægður með þessi tíðindi. "Mér finnst það mjög miður ef hætt verður að keppa í fimi á íslenskum hestum og sérstaklega tel ég það slæmt ef þessi grein verður aflögð í yngri flokkunum því þá er hætta á að grunnþættir reiðmennskunnar gleymist í uppeldinu. Ég tel að ástæður þess að svona er komið megi rekja til uppsetningar á fimikeppni heimsmeistaramótanna sem er með þeim hætti að í verkefninu er enginn erfiðleikastuðull. Því má segja að bestu reiðmenn heims á íslenskum hestum séu að ríða reiðleiðaverkefni í stað þess að leysa af hendi metnaðarfullar æfingar eins og sniðgang á brokki og eða tölti. Þetta fyrirkomulag ýtir ekki undir metnað góðra reiðmanna til að sýna eitthvað sem bragð er að. Núverandi heimsmeistari í fimi, Karly Zingsheim, sem er óumdeilanlega með snjöllustu reiðmönnum heims, reið sniðgang á feti í sínu verkefni sem færði honum titilinn en gaman hefði verið að sjá hann útfæra einhverjar rishærri æfingar. Skynsamur maður í keppni er ekkert að gera erfiðari æfingar en þarf til að tryggja sér sigur þegar engin umbun er veitt fyrir slíkt.

Ég teldi það mikla afturför ef við hættum með fimikeppni hér á landi. Nú síðustu árin hefur komið fram breiður hópur ungra reiðmanna sem notar þessar æfingar í ríkum mæli við tamningu og þjálfun hrossa og kann að útfæra þær í keppni. Ég tel fulla ástæðu til þess að halda áfram með þetta sem keppnisgrein þótt þátttakan hafi ekki verið mikil til þessa. Spurning er svo aftur hvort ástæða sé til að hafa fimina með í samanlögðum stigum," sagði Íslandsmeistarinn Atli að endingu.

Dapurleg endalok en skiljanleg

Eyjólfur Ísólfsson, reiðkennari á Hólum og margfaldur Íslandsmeistari í fimi, sagðist hafa lýsti því yfir við Sigurð Sæmundsson að þetta væri leiðinlegt skref sem þarna væri stigið en þó kannski skiljanlegt. "Í mínum huga var fimikeppnin eyðilögð þegar tillögur frá mér, Reyni Aðalsteinssyni, Sigurbirni Bárðarsyni og Benedikt Líndal fóru til FEIF (alþjóðasamband eigenda íslenskra) og voru settar þar í nefnd sem því miður gerði breytingar sem urðu þess valdandi að keppnin varð algerlega bitlaus þannig að hægt var að ríða til verðlauna með hálfgerðu fjórgangsverkefni. Eftir þessar breytingar nefndarinnar á tillögunni hefur hallað undan fæti sem virðist ætla að fá þennan dapurlega endi. Í fimikeppni hér á landi gilda reglur samkvæmt okkar tillögum enda er þar um mun metnaðarfyllri keppni að ræða heldur en verið hefur á heimsmeistaramótunum. Nú er búið að fella niður tvöfalt vægi hæga töltsins í töltkeppninni og næst er það fimikeppnin út og sýnist mér hlutirnir farnir að snúast meir um yfirferð og rými en minna um reiðlist. Er ég afar hræddur um að þessi ákvörðun muni valda því að keppni í fimi verði einnig aflögð hér á landi í framhaldinu. Ég hefði kosið að sjá menn þrjóskast við og finna fimikeppninni vænlegri farveg, færa hana til dæmis nær því sem kallað hefur verið gæðingafimi þar sem höfðað er meira til aðals íslenska hestsins," sagði Eyjólfur.

Ekki er hægt að horfa framhjá því að áhugi fyrir fimikeppni á Íslandi hefur verið afar takmarkaður. Síðustu árin hefur nær eingöngu verið keppt í fimi á Íslandsmótum og þar hafa keppendur verið afar fáir, oft ekki nema tveir eða þrír. Fimin hefur verið reiknuð með í keppninni um samanlagðan sigurvegara og því hafa mjög fáir verið gjaldgengir í keppninni um þann titil á Íslandsmótum. Atli Guðmundsson bendir á að hugsanlegi mætti taka greinina út úr samanlögðum sigurvegara. Þá stendur hún alfarið á eigin fótum og spurningin er þá sú hvort þessir örfáu missi áhugann. Það merkilega við fimina er að það eru fjölmargir hestamenn sem hafa áhuga fyrir æfingunum en þeir eru hverfandi fáir sem hafa uppburði í sér til að undirbúa hest sinn með þátttöku í keppni fyrir augum.

Íslendingar fáséðir í fiminni

Þá heyrir það til tíðinda að Íslendingar keppi í fimi á heimsmeistaramótum. Síðast var íslenskur skráður til leiks í Þýskalandi 1999 en það klúðraðist því Íslendingar kunnu reglurnar ekki nógu vel og ekkert varð af þátttöku.

Bæði Atli og Eyjólfur og margir fleiri telja að hefð fyrir fimiþjálfun sé að tryggja sig í sessi hér á landi og því komi þessi niðurstaða á mjög óheppilegum tíma. Í stað þess að leggja árar í bát hefði átt að endurskoða fimiverkefni FIPO-reglnanna og snúast til varnar þessari undirstöðu reiðmennskunnar eins og hún hefur verið að þróast síðustu árin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert