Samstarf um rannsókn á Landsmóti 2018

Guðrún Helgadóttir, prófessor ferðamáladeildar, Áskell Heiðar, framkvæmdastjóri LH, og Ingibjörg ...
Guðrún Helgadóttir, prófessor ferðamáladeildar, Áskell Heiðar, framkvæmdastjóri LH, og Ingibjörg Sigurðardóttir lektor. Ljósmynd/Aðsend

Landsmót hestamanna, Rannsóknamiðstöð ferðamála og Háskólinn á Hólum og ferðamáladeild innan skólans hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingu þess efnis að Landsmót hestamanna 2018 verði rannsakað sem heildstæður viðburður.

Markmið rannsóknarinnar er að auka þekkingu á viðburðahaldi og viðburðastjórnun einkum á sviði hestamennsku, styrkja tengslanet rannsakenda á sviði viðburðastjórnunar, auka þekkingu á Landsmóti hestamanna sem viðburði og efla rannsóknir í viðburðastjórnun, segir í tilkynningu. Rannsóknin verður framhald af fyrri rannsóknum ferðamáladeildar Háskólans á Hólum á Landsmóti hestamanna sem viðburði.

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum sérhæfir sig í viðburðastjórnun og ferðamálafræði. Deildin mun safna gögnum á mótinu og sjá um úrvinnslu og miðlun niðurstaðna innan lands og utan í samstarfi við samstarfsaðila og aðra innlenda og erlenda sérfræðinga á þessu sviði. 

Verkefninu stýra Guðrún Helgadóttir prófessor og Ingibjörg Sigurðardóttir lektor og undirrituðu þær samkomulagið í Víðidalnum í dag, ásamt Áskeli Heiðari Ásgeirssyni, framkvæmdastjóra Landsmóts.

mbl.is