Yngsti knapinn jafngamall hestinum

Elísabet Vaka við æfingar á vellinum í Víðidal en hún ...
Elísabet Vaka við æfingar á vellinum í Víðidal en hún keppir á morgun í úrslitum í barnaflokki. Nína Guðrún Geirsdóttir

Knapinn Elísabet Vaka Guðmundsdóttir er yngsti knapi Landsmóts sem keppir í úrslitum en hún varð efst í barnaflokki í vikunni. Hún er tæplega 10 ára gömul og keppir á Náttfara frá Bakkakoti sem er einnig tæplega 10 ára og því jafnaldri hennar. 

Hún kemur úr mikilli hestafjölskyldu en systur hennar tvær eru líka knapar og sinna því af mikilli ástríðu. Elísabet Vaka keppir ekki aðeins í hestaíþróttinni en samhliða æfir hún og keppir í fótbolta af miklu kappi. Stefnan er þó tekin á hestaíþróttina. „Ég ætla að verða hestakona þegar ég verð stór. Ég á eina meri sem ég ætla temja í haust sem heitir Dögg,“ segir Elísabet og bætir við að faðir Daggar, Dagur frá Hjarðartúni, sé einnig í úrslitum. Elísabet hefur verið að æfa sig á trampólíni til að styrkja sig sem hún segir koma sér vel í bæði fótboltanum og á hestunum en trampólínæfingarnar þjálfa m.a. aukið jafnvægi. Elísabet er að vonum spennt fyrir því að keppa aftur en úrslit í barnaflokki verða á morgun kl. 12.

mbl.is