Gestgjafinn orðinn stuðningmaður Íslands

Vel var tekið á móti Eyþóri hjá fjölskyldu Valeriu.
Vel var tekið á móti Eyþóri hjá fjölskyldu Valeriu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var eins rússneskt og það getur orðið,“ segir Eyþór Jóvinsson leikstjóri um matarboð í uppsveitum Volgograd sem honum var boðið í. Eyþór gistir hjá rússneskri stelpu í Volgograd á meðan dvöl hans í Rússlandi stendur yfir.

„Maður er örugglega að upplifa borgina allt öðruvísi heldur en margir sem eru hérna á hótelum eða Airbnb þar sem þeir eru ekki í svona miklum samskiptum við heimamann,“ segir Eyþór Jóvinsson um síðustu daga.

Eyþór var frá upphafi ákveðinn í að fara til Rússlands á HM og ætlaði upphaflega á leikinn á móti Argentínu eins og margir Íslendingar. Hann lenti þó í því að Airbnb gistingin sem hann hafði bókað sér í Moskvu hækkaði úr 25 dollurum í 800 dollara fyrir nótt.

„Þá afpantaði ég það og ákvað að sleppa því að fara til Rússlands. Ég nennti ekki að taka þátt í þessu rugli,“ segir Eyþór.

„Svo datt mér í hug að fara inn á síðuna couchsurfing.com af því að á Íslandi hef ég verið að taka á móti fullt af krökkum sem eru að ferðast til Íslands í gegnum síðuna. Þá færðu í raun og veru ókeypis gistiaðstöðu og býður gestgjafanum út að borða í staðinn eða kemur með gjafir frá heimalandinu,“ útskýrir Eyþór.

„Ég hef alltaf bara verið gestgjafinn þannig ég athugaði hvort það væri einhver hérna í Volgograd og endaði hjá þessari rússnesku stelpu, Valeria heitir hún. Svo í gær bauð hún mér í fjölskylduboð hjá foreldrum hennar og vinum,“ bætir hann við.

Eyþór og Valeria Zenchenko hafa eytt miklum tíma saman í …
Eyþór og Valeria Zenchenko hafa eytt miklum tíma saman í Volvograd. Ljósmynd/Aðsend

Valeria stendur sig vel í hlutverki gestgjafa og bauð Eyþóri í matarboð með foreldrum hennar og vinum.

„Við keyrðum hérna frá miðbæ Volgograd í einhverri eldgamalli Lödu lengst út í sveit á einhverjum sveitavegum. Þar var tekið á móti okkur með vodkaskotum, mat fram á nótt og rússnesku rauðvíni. Það var mikið stuð og mikið partý vægast sagt,“ lýsir Eyþór.

Eyþór og Valeria keyrðu á gamalli Lödu úr miðborg Volvograd …
Eyþór og Valeria keyrðu á gamalli Lödu úr miðborg Volvograd út í sveit þar sem fjölskylda hennar tók á móti þeim vodkaskotum. „„Þetta var eins rússneskt og það getur orðið,“ segir Eyþór. Ljósmynd/Aðsend
Rússneskar kræsingar í uppsveitum Volvograd.
Rússneskar kræsingar í uppsveitum Volvograd. Ljósmynd/Aðsend

Valeria hefur einnig verið dugleg að sýna Eyþóri borgina og þau hafa eytt miklum tíma saman síðustu daga.

„Við erum eiginlega búin að vera saman allan tímann. Hún var að klára skólann og er í fríi. Ég er búinn að gera hana að íslenskum stuðningsmanni og hún er búin að fara með mér um borgina og sýna mér stríðsminjar. Ég hef mikið getað spurt hana um borgina og skelfingarnar sem áttu sér stað, öll stríðin og þetta. Þetta voru forfeður hennar sem börðust og létu lífið í stríðunum á sínum tíma þannig að þetta er ansi mögnuð upplifun,“ segir Eyþór hæstánægður með ævintýrið hingað til.

Eyþór verður hjá Valeriu fram á mánudag og ætlar að njóta lífsins í borginni áður en hann fer heim. Hann útilokar þó ekki að fara aftur til Rússlands á fleiri leiki ef Ísland kemst upp úr riðlinum sínum.

Eyþór og Valeria skelltu sér í sund.
Eyþór og Valeria skelltu sér í sund. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is