Allt undir í Samara og Sotsjí í dag

Harry Kane og Emil Forsberg mætast í dag.
Harry Kane og Emil Forsberg mætast í dag. AFP

Átta liða úrslit heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi klárast í dag. Svíþ jóð og England mætast annars vegar í Samara klukkan 14 að íslenskum tíma. Þá mætast Rússland og Króatía í Sotsjí klukkan 18 og mun eitt af þessum fjórum liðum leika til úrslita á mótinu á Luzhniki-vellinum í Moskvu, 15. júlí, gegn Frakklandi eða Belgíu.

Kokhraustir Englendingar

Samkvæmt ensku pressunni er heimsmeistaratitillinn á leiðinni til Englands en liðið sló Kólumbíu úr leik í 16-liða úrslitum HM eftir vítakeppni. Allt er þegar fernt er en fyrir leikinn gegn Kólumbíu hafði England aldrei unnið vítakeppni á heimsmeistaramóti. Það breyttist hins vegar í Moskvu 3. júlí síðastliðinn þegar Eric Dier kom Englendingum áfram í átta liða úrslitin með síðustu spyrnu vítakeppninnar en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1:1. Svíar unnu 1:0 sigur á Sviss í Pétursborg í 16-liða úrslitunum en það var Emil Forsberg sem skoraði eina mark leiksins á 66. mínútu.

Svíar hafa spilað frábæran varnarleik á mótinu og hafa aðeins fengið á sig tvö mörk til þessa en þau komu bæði í 2:1 tapi gegn Þýskalandi í riðlakeppninni. Það má því búast við hörkuleik í dag þar sem Svíar munu að öllum líkindum liggja vel til baka og beita hnitmiðuðum skyndisóknum gegn vel mönnuðu liði Englands.

Króatar sigurstranglegri

Heimamenn í Rússlandi hafa komið á óvart í keppninni til þessa en liðið sló Spánverja óvænt úr leik í 16-liða úrslitum eftir vítakeppni. Spánverjar voru taldir sigurstranglegir fyrir mótið en Rússar virka til alls líklegir á heimsmeistaramótinu og hafa þeir spilað skemmtilega knattspyrnu til þessa.

Króatar fóru sömuleiðis áfram í átta liða úrslitin eftir sigur í vítakeppni en þeir slógu Dani úr leik í 16-liða úrslitunum. Króatar spiluðu afar vel í riðlakeppninni og unnu D-riðil sannfærandi með fullt hús stiga. Það má því reikna með skemmtilegum knattspyrnuleik í Sotsjí í dag. Króatar eru með mun sterkara lið á pappírunum en stuðningurinn sem heimamenn fá í Sotsjí gæti skipt sköpum fyrir framhaldið hjá Rússum. bjarnih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert