Marokkó á topp F-riðils

Abdelhamid Sabiri kom inn á sem varamaður og skoraði fyrsta …
Abdelhamid Sabiri kom inn á sem varamaður og skoraði fyrsta mark Marokkó á HM í Katar. AFP/Fadel Senna

Marokkó skellti Belgíu, 2:0 í 2. umferð F-riðils heimsmeistaramóts karla í fótbolta, á Al-Thumama-vellinum í Katar í dag.

Hakim Ziyech skoraði mark beint úr aukaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks sem dæmt var af vegna rangstöðu. Á 73. mínútu skoraði Abdelhamid Sabiri beint úr aukaspyrnu úti við hornfánann vinstra megin.

Belgar lögðu allt í sölurnar undir lok leiksins en lið Marokkó tókst að skora annað mark undir lok leiksins þegar Hakim Ziyech lagði boltann út á Zakaria Aboukhlahl sem stýrði boltanum upp í nærhornið.

Belgar voru meira með boltann en lið Marokkó varðist vel og var hættulegt fram á við. Belgar fengu fleiri færi en það er ekki alltaf spurt að því.

Marokkó tyllir sér, með sigrinum, á topp F-riðils með 4 stig að loknum tveimur leikjum. Belgía heldur öðru sæti í riðlinum með 3 stig fram að leik Króatíu og Kanada sem hefst klukkan 16. Króatar eru með 1 stig í þriðja sæti riðilsins og Kanada rekur lestina án stiga.

Stuðningsmenn Marokkó fagna fyrsta marki liðsins á HM í Katar.
Stuðningsmenn Marokkó fagna fyrsta marki liðsins á HM í Katar. AFP/Manan Vatsyayana

Marokkó byrjaði leikinn ágætlega en það voru Belgar sem fengu fyrsta færið. Thorgan Hazard átti góða sendingu inn fyrir vörn Marokkó á Michy Batshuayi á 5. mínútu en skot framherjans vinstra megin úr teignum var varið í horn af Munir í marki Marokkó. Ekkert varð úr hornspyrnu Belga.

Á 16. mínútu útfærðu Belgar aukaspyrnu úti á vinstri vængnum á skemmtilegan hátt. Thorgan Hazard lagði boltann með grasinu inn á bróður sinn Eden við vítateigslínuna. Eden Hazard setti boltann í fyrsta út á Kevin De Bruyne sem lét vaða í fyrsta en varnarmenn Marokkó komust fyrir skotið. Belgar fengu hornspyrnu í kjölfarið sem Onana skallaði yfir af stuttu færi.

Thomas Meunier reyndi á Munir í marki Marokkó á 19. mínútu en skot hans utan teigs truflaði markvörðinn ekki mikið.

Hakim Ziyech átti fyrsta skotið að marki fyrir Marokkó á 21. mínútu en skot hans utan teigs sveif yfir mark Belga.

Marokkó komst í álitlega sókn á 28. mínútu. Boufal tók vel á móti boltanum úti til vinstri eftir langa sendingu fram völlinn úr öftustu línu. Hann keyrði að vítateignum og lyfti boltanum á fjærstöng á Hakimi sem skallaði boltann út í teiginn á Amallah en skot hans fór vel yfir mark Belgíu.

Hakimi slapp inn fyrir vörn Belgíu á 35. mínútu. Hann fékk boltann á hægri kantinum, náði að koma sér inn á teiginn og átti fast skot rétt framhjá marki Belgíu.

Á 39. mínútu nældi Kevin De Bruyne í aukaspyrnu nánast út við hornfánann vinstra megin. Hann tók spyrnuna sjálfur og reyndi skot að marki Marokkó. Skotið var nokkuð fast og fór ofan á þaknetið fjær. Ágætis tilraun hjá De Bruyne.

Þegar 2 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik átti Hakim Ziyech frábæra aukaspyrnu utan af hægri vængnum. Sending hans eða skot að marki Belgíu hafnaði í netinu en Romain Saiss var aðeins fyrir innan varnarlínuna og hafði áhrif á Courtois í marki Belgíu. Cesar Ramos, dómari frá Mexíkó, fór í skjáinn og dæmdi svo mark Marokkó af.

Thibaut Courtois sigraður en myndbandsdómgæsla bjargaði belgíska markverðinum.
Thibaut Courtois sigraður en myndbandsdómgæsla bjargaði belgíska markverðinum. AFP/Jack Guez

Hálfleikstölur 0:0 í leik sem Belgar hafa stýrt að mestu leiti. Belgíska liðið skapaði sér fleiri færi en lið Marokkó óx ásmegin eftir því sem á leið og er til alls líklegt í seinni hálfleik.

Ziyech hóf seinni hálfleikinn fyrir Marokkó með ágætri skottilraun utan teigs á 50. mínútu en Courtois var ekki í vandræðum með skotið sem fór nánast beint á þann belgíska.

Tveimur mínútum síðar var Eden Hazard á ferðinni hægra megin í teignum en fast skot hans á nærstöngina var varið af Munir í marki Marokkó.

Boufal keyrði inn í vítateig Belgíu vinstra megin á 57. mínútu en fast skot hans með jörðinni fór rétt framhjá fjærstönginni.

Dries Mertens, sem komið hafði inn á sem varamaður fyrir Eden Hazard á 60. mínútu, átti gott fast skot í vítateigsboganum fimm mínútum síðar en Munir varði mjög vel í vinstra horninu.

Mark! Abdelhamid Sabiri skoraði beint úr aukaspyrnu úti við hornfánann vinstra megin á 73. mínútu. Sóknarmenn Marokkó trufluðu Courtois rétt eins og í markinu sem dæmt var af Ziyech í fyrri hálfleik en í þetta skiptið var enginn rangstæður, 0:1.

Thibaut Courtois gat ekki varist lúmskri aukaspyrnu Sabiri.
Thibaut Courtois gat ekki varist lúmskri aukaspyrnu Sabiri. AFP/Kirill Kudryavtsev

Vertongen átti góðan skalla á 82. mínútu eftir hornspyrnu frá hægri en boltinn sveif rétt fram hjá marki Marokkó.

Hamdallah komst í þröngt skotfæri á 90. mínútu eftir skyndisókn en Courtois í marki Belgíu sá við honum.

Hakim Ziyech sýndi  frábær tilþrif inni á vítateig belgíska liðsins á annarri mínútu viðbótartíma seinni hálfleiks. Hann lagði boltann svo út á varamanninn, Zakaria Aboukhlahl, sem stýrði boltanum listavel upp í nærhornið, 0:2.

Zakaria Aboukhlal fagnar marki sínu ásamt Nayef Aguerd.
Zakaria Aboukhlal fagnar marki sínu ásamt Nayef Aguerd. AFP/Glyn Kirk

Belgar voru meira með boltann en lið Maokkó varðist vel og voru hættulegir fram á við. Belgar fengu fleiri færi en það er ekki alltaf spurt að því. 

Lið Belgíu: (3-4-3)
Mark: Thibaut Courtois.
Vörn: Timothy Castagne, Toby Alderweireld, Jan Vertonghen.
Miðja: Thomas Meunier (Lukaku 81.), Amadou Onana (Tielemans 60.), Axel Witsel, Thorgan Hazard (Trossard 75.).
Sókn: Kevin De Bruyne, Michy Batshuayi (De Ketelaere 75.), Eden Hazard (Mertens 60.).

Lið Marokkó: (4-3-3)
Mark: Munir.
Vörn: Achraf Hakimi (Sabiri 68.), Nayef Aguerd, Romain Saiss, Noussair Mazraoui.
Miðja: Azzedine Ounahi (Yamiq 78.), Sofyan Amrabat, Selim Amallah (Allah 68.).
Sókn: Hakim Ziyech, Youssef En-Nesyri (Hamdallah 73.), Sofiane Boufal (Aboukhlahl).

Liðsmenn Marokkó þakka stuðningsmönnum sínum eftir sætan sigur á Belgíu …
Liðsmenn Marokkó þakka stuðningsmönnum sínum eftir sætan sigur á Belgíu í dag. AFP/Manan Vatsyayana
mbl.is