Alexander stóð sig best Íslendinganna

Alexander Petersson skorar eitt sex marka sinna gegn Króötum.
Alexander Petersson skorar eitt sex marka sinna gegn Króötum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Alexander Petersson var ofarlega í mörgum tölfræðiþáttum á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem lauk í Svíþjóð í gær. Alexander þótti skara frammúr í liði Íslendinga á mótinu og hann var valinn í úrvalslið mótsins af sérstakri dómnefnd á vegum Alþjóða handknattleikssambandsins.

Þegar mörk og stoðsendingar eru talin saman varð Alexander í þriðja sæti á eftir Dananum Mikkel Hansen og Frakkanum Nikola Karabatic. Alexander skoraði 53 mörk á mótinu og átti 28 stoðsendingar sem gera samtals 81 mark. Hansen skoraði 69 mörk og varð markakóngur, átti 34 stoðsendingar og er því samanlagt með 102 mörk og Karabatic skoraði 51 mark, átti 34 stoðsendingar og er samanlagt með 85 mörk.

Alexander var steliþjófur HM en hann „stal“ flestum boltum af móterjum sínum eða 14 talsins. Hann varð í sjötta sæti yfir markahæstu leikmenn og í áttunda sæti yfir þá leikmenn sem áttu flestar stoðsendingarnar.

mbl.is