Ættu að fara í fangelsi

Lino Cervar landsliðsþjálfari Króata.
Lino Cervar landsliðsþjálfari Króata. AFP

Danska dómaraparið Mads Hansen og Martin Gjeding pantar sér líklega ekki ferð til Króatíu í sumar til að eyða sumarfríinu því Króatar eru vægast sagt brjálaðir út í þá en Danirnir dæmdu leik þeirra gegn Þjóðverjum í milliriðli á heimsmeistaramótinu í handknattleik í gærkvöld.

Þjóðverjar höfðu betur í æsispennandi leik 22:21 og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitunum á mótinu en tapið gerði það að verkum að Króatar eiga ekki möguleika á að endar ofar en í 5. Sæti á HM.

Króötunum fannst mjög á sig hallað í dómgæslu Dananna og hinn reyndi þjálfari þeirra, Lino Cervar, sparaði ekki stóru orðin í viðtölum eftir leikinn.

„Dómararnir stálu sigrinum frá okkur. Það á að refsa þeim eins hart og mögulegt er. Þeir ættu ekki að fá að dæma meira og þeir ættu að fara í fangelsi fyrir þeirra frammistöðu. Ég veit ekki hvar ég á að byrja því það var í svo mörgum tilvikum sem við vorum sviknir. Allur heimurinn sá þetta,“ sagði Cervar í viðtali við króatíska fjölmiðilinn Vevernji List eftir leikinn.

Igor Vori, fyrrverandi fyrirliði króatíska landsliðsins og nú aðstoðarmaður Cervars, tók í sama streng og landsliðsþjálfarinn.

„Þetta var skömm fyrir íþróttina. Þegar markvörður þýska liðsins, Silvio Heinevetter, kemur til mín eftir leikinn og biðst afsökunar þá er eitthvað rangt,“ sagði Vori.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert