Engir vildu mæta Dönum fyrir HM

Nicolaj Jacobsen er landsliðsþjálfari Dana.
Nicolaj Jacobsen er landsliðsþjálfari Dana.

Danir, ríkjandi heimsmeistarar í handknattleik karla, áttu í vandræðum með að fá vináttulandsleiki til undirbúnings fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í Póllandi og Svíþjóð í næstu viku.

Talsverða athygli hefur vakið að einu leikir Dana fyrir mótið verða  gegn Sádi-Arabíu í kvöld og á laugardaginn. Sádi-Arabar eru með danskan þjálfara, Jan Pytlick.

Bent Nyegaard, handboltasérfræðingur TV 2 í Danmörku og þjálfari ÍR og Fram á árum áður, segir að önnur lið forðist að mæta danska liðinu í aðdraganda mótsins.

„Danska liðið er of gott til að það sé heppilegur andstæðingur í vináttuleikjum fyrir s tórmót. Allir vilja koma með góða leiki á bakinu inn á heimsmeistaramót. Menn vilja spila leiki sem þeir fá mikið út úr en séu um leið ekki svekktir yfir því að það hafi verið valtað yfir þá," segir Nyegaard við TV 2.

Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari viðurkennir í viðtali við TV 2 að það hafi ekki verið auðvelt að fá leiki fyrir keppnina.

„Við höfum ekki getað valið okkur mótherja. Mörg önnur landslið hafa valið aðra kostsi en okkur og ég veit það það vilja ekki allir mæta Danmörku rétt fyrir stórmót. Það er ekki eins og liðin bíði í röð eftir að fá að spila  við okkur," sagði Jacobsen.

Spurður um ástæður þess svaraði hann. „Það geta verið margar ástæður en það má vera að menn vilji forðast að tapa leikjum eða fá þá tilfinningu að þeir ráði ekki við mótherjann."

Danir eru í léttum riðli á HM en með þeim í H-riðlinum eru Belgía, Barein og Túnis. Í milliriðli mæta þeir væntanlega Egyptalandi, Króatíu og Marokkó, eða þá Bandaríkjunum.

Danska liðið leikur í riðli í Malmö, sem er steinsnar frá Kaupmannahöfn, og verður því nánast á heimavelli í riðlakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert