Hef verið á mörgum stórmótum en ekki upplifað þetta

Guðmundur Guðmundsson fylgist með sínum mönnum í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson fylgist með sínum mönnum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var frábærlega vel gert,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 38:25-stórsigurinn á Suður-Kóreu í lokaleik liðanna í D-riðli í kvöld. 

„Þetta lítur út fyrir að vera einfalt þegar þú sérð úrslit leiksins en í fyrsta lagi voru þetta þung spor út af vellinum eftir leikinn á móti Ungverjalandi.

Erfiður dagur í gær

Þetta var erfiður dagur í gær og líka erfiður dagur í dag. Það sýnir styrkleika liðsins að þeir koma mjög einbeittir í þetta verkefni og eru sterkir frá fyrstu sekúndu, bæði í vörn og sókn,“ sagði Guðmundur og hélt áfram:

Guðmundur gengur hugsi af velli í kvöld.
Guðmundur gengur hugsi af velli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég var mjög ánægður með vörnina í fyrri hálfleik að stóru leyti. Við náum þá forskoti, fáum mörg hraðaupphlaup. Við vildum svo byrja seinni hálfleikinn alveg á fullu og gefa ekki tommu eftir. Ég var mjög ánægður með það. Svo var gefið í allan leikinn.

Það er líka jákvætt í þessu að við fengum frábæra frammistöðu frá mörgum leikmönnum, sem hafa ekki spilað mikið til þessa. Viktor Gísli kemur með mjög góða markvörslu, Óðinn með ellefu mörk og Viggó með fína innkomu.

Þakklátur fyrir magnaðan stuðning

Við náðum að rúlla á öllu liðinu, sem er mjög jákvætt. Sóknarleikurinn var mjög góður og við leystum öll þau vandamál sem komu upp,“ sagði hann.

Guðmundur var síðan þakklátur fyrir þann magnaða stuðning sem íslenska liðið fékk í kvöld.

Guðmundur er oft tilfinningaríkur á hliðarlínunni.
Guðmundur er oft tilfinningaríkur á hliðarlínunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vil þakka stuðningsmönnunum sérstaklega, fyrir gjörsamlega frábæra og ógleymanlega stemningu. Ég hef verið lengi í þessu og það sem hreyfir við okkur er þessi ofboðslega samstaða og þetta hjarta. Við munum svo aldrei gleyma þegar þau syngja fyrir okkur í lokin.

Ég hef verið á mörgum stórmótum og ekki upplifað þetta svona. Við erum þakklátir, því stuðningsmennirnir færa okkur á næsta stig. Við erum fullir af þakklæti. Við leggjum okkur fram til að gera þetta fyrir okkar stuðningsmenn sem eru mættir, eins og við gerum þetta fyrir þjóðina og liðið,“ sagði Guðmundur.

Lækkað var í tækjunum í höllinni þegar þjóðsöngur Íslands var leikinn, svo að söngur magnaðra íslenskra stuðningsmanna fengi að njóta sín betur. „Það var stórkostlegt. Það var gæsahúð og ég held ég hafi ekki verið einn um það,“ sagði þjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert