Bað Elliða afsökunar: Ætlaði ekki að slá hann

Andreas Palicka reynir að ná boltanum af Elliða Snæ Viðarssyni …
Andreas Palicka reynir að ná boltanum af Elliða Snæ Viðarssyni í atvikinu umdeilda. AFP/Björn Larsson

Andreas Palicka, markvörður og hetja Svía í leiknum gegn Íslendingum á HM í handbolta í kvöld, og Elliði Snær Viðarsson línumaður Íslands féllust í faðma eftir leikinn í Gautaborg þrátt fyrir harkaleg viðskipti þeirra snemma í seinni hálfleiknum.

Elliði datt þá á boltann í vítateig Svía og Palicka reiddist mjög þegar hann náði ekki boltanum af Eyjamanninum, reif í hann og sló hann í magann. Báðir voru sendir af velli í tvær mínútur eftir að dómarar höfðu skoðað viðskipti þeirra á sjónvarpsskjá.

„Ég ætlaði alls ekki að gefa honum högg í magann. Hann æsti mig upp og ég brást illa við. Svo endurtók hann það með því að liggja á boltanum þegar ég ætlaði að ná honum. Ég sagðist vera mjög þreyttur á honum en það var alls ekki ætlunin að slá hann. Það var bara sanngjarnt að við værum báðir reknir af velli í tvær mínútur,“ sagði Palicka við Aftonbladet.

Hluti af leiknum og vináttubardagi

Blaðið spurði Elliða um atvikið. „Þetta er hluti af leiknum, þetta var vináttubardagi. Við viljum allir vinna leikinn svo menn gera allt sem þeir geta, ekkert annað en það. Stundum missa menn aðeins stjórn á sér,“ sagði Elliði.

Björgvin Páll Gústavsson tók þátt í faðmlögum þeirra Elliða og Pavlicka í leikslok og allir skildu sem vinir. „Hann bað línumanninn okkar afsökunar og sýndi mikla íþróttamennsku,“ sagði Björgvin um Palicka við Aftonbladet.

Palicka varði annars hvað eftir annað frá Elliða í seinni hálfleik, og fleiri Íslendingum, en hann var fyrst og fremst sá sem skildi liðin að með magnaðri markvörslu.

„Palicka var mjög góður, alveg ótrúlegur. Ég held að hann hafi varið fjögur eða fimm skot frá mér. Ef ég hefði skoraði úr þeim öllum hefði leikurinn endað með jafntefli,“ sagði Elliði við Aftonbladet.

mbl.is