Heimsmeistarnir í úrslit þriðja sinn í röð

Danmörk er búið að tryggja sér sæti í úrslitum HM …
Danmörk er búið að tryggja sér sæti í úrslitum HM 2023. AFP/Janek Skarzynski

Ríkjandi heimsmeistarar Danmerkur í handknattleik karla tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitum HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi með afar sterkum sigri á Spáni, 26:23, í undanúrslitum mótsins.

Danir voru með undirtökin í fyrri hálfleik og náðu fjögurra marka forystu, 10:6, þegar hann var rúmlega hálfnaður.

Spánverjar eru síst þekktir fyrir að gefast upp og minnkuðu muninn í aðeins eitt mark, 11:10, en tókst hins vegar ekki að fylgja þessum góða kafla eftir það sem eftir lifði af hálfleiknum.

Danir luku honum enda með því að skora síðustu fjögur mörkin og staðan í hálfleik því 15:10.

Til að byrja með héldu Danir þægilegu fimm marka forskoti sínu í síðari hálfleik en líkt og áður gáfust ólseigir Spánverjar ekki upp og náðu að minnka muninn niður í eitt mark, 20:19.

Danir náðu aftur vopnum sínum og komust fimm mörkum yfir á ný, 25:20, en Spánverjum tókst hins vegar að minnka muninn niður í tvö mörk, 25:23.

Þá tók Danmörk leikhlé með eina mínútu og 21 sekúndu eftir á leikklukkunni.

Danir fengu vítakast en Gonzalo Pérez de Vargas varði frá Mikkel Hansen, og það í annað skiptið í leiknum.

Spánverjar tóku þá leikhlé og fengu einnig vítakast en Niklas Landin varði frá Pol Valera Rovira.

Danir geystust í sókn og skoruðu síðasta mark leiksins.

Simon Pytlick var markahæstur hjá Danmörku með sex mörk og skammt undan var Magnus Saugstrup Jensen með fimm.

Alex Dujshebaev var markahæstur í liði Spánar með fimm mörk.

Danmörk hefur staðið uppi sem heimsmeistari á síðustu tveimur heimsmeistaramótum og fær tækifæri til þess að vinna þriðja titilinn í röð á sunnudag þegar liðið mætir annað hvort gestgjöfum Svíþjóðar eða Frakklandi í úrslitaleiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert