Óvænt tíðindi í riðli Íslands

Tekist á í leik Serba og Belga í dag.
Tekist á í leik Serba og Belga í dag. Ljósmynd/Sorin Pana

Fyrstu tveimur leikjunum í þriðju umferð A-riðils 2. deildar HM í íshokkí í Galati í Rúmeníu, en Ísland spilar við heimamenn klukkan 17. Óhætt er að segja að úrslitin í dag hafi verið nokkuð óvænt.

Belgía tapaði 9:1 fyrir Rúmeníu í fyrsta leiknum, en vann Spánverja í öðrum leiknum. Í dag mættu Belgar Serbum, sem voru með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina. Það fór hins vegar svo að Serbar unnu gríðarlega öruggan sigur, 9:2, og eru því með fjögur stig eftir þrjá leiki.

Belgía mætir Íslandi á morgun og er með þrjú stig, eins og íslenska liðið, sem á þó leik til góða eins og áður segir. Serbía er svo síðasti mótherji Íslands á sunnudag.

Spánverjar eru svo í slæmum málum, en frammistaða þeirra hefur komið virkilega á óvart. Þeir höfnuðu í 2. sæti á HM í fyrra, en eru nú án stiga á botninum. Í dag var það Ástralía sem hafði betur í rimmu liðanna, 5:3. Ástralir skutust um leið á toppinn um stund með 8 stig, en þeir eru nýliðar í deildinni í ár.

Leikur Íslands og Rúmeníu hefst sem áður segir klukkan 17 og er í beinni textalýsingu frá Galati hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert